fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stofnfundur félags um vottun á sjálfbærum veiðum

21. júní 2012 kl. 11:53

Icelandic Group opnar fyrir aðgang annarra að MSC-vottun sinni.

Icelandic Group hf. boðar til stofnfundar Iceland Sustainable Fisheries ehf. á morgun, föstudaginn 22. júní. Tilefni fundarins er að í apríl síðastliðnum fékk félagið vottun á sjálfbærum veiðum alls þorsk- og ýsuafla á Íslandsmiðum, samkvæmt staðli Marine Stewardship Council, (MSC). Ákveðið hefur verið að opna fyrir aðgang annarra hagsmunaaðila að vottuninni, að uppfylltum vissum skilyrðum. 

Iceland Sustainable Fisheries ehf. verður félag þeirra aðila sem telja sig geta haft hag af MSC vottun afurða úr þessum fiskistofnum og hugsanlega öðrum fiskistofnum sem sótt yrði um vottun á veiðum síðar. 

Icelandic Group hf. mun leggja vottunarskírteinin til hins nýja félags til umsýslu. Vottunin tekur til alls leyfilegs heildarkvóta þessara tegunda, veitt af íslenskum skipum á hvaða veiðarfæri sem er. Í frétt frá Icelandic Group segir að nokkur fjöldi hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafi þegar boðað þátttöku sína í hinu nýja félagi. 

Stofnfundurinn verður á morgun, föstudaginn 22. júní, klukkan 14-16 á Grand Hótel í Reykjavík.