þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stofnmæling á síld að hefjast

22. október 2009 kl. 15:00

Gert er ráð fyrir því að Dröfn RE fari til stofnmælingar á síld í Breiðafirði á föstudaginn að því er fram kemur í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Umfangsmikið samstarf Hafrannsóknastofnunar og útgerðarmanna uppsjávarskipa er nú hafið um rannsóknir á íslenskri sumargotssíld. Í vikunni fóru fjögur uppsjávarskip til leitar og sýnatöku vegna sýkingar sem hrjáir síldina og gert er ráð fyrir því að þeim þætti rannsóknarinnar ljúki um eða eftir helgina, að því er Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnssviðs Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við Fiskifréttir.

Þorsteinn segist gera ráð fyrir því að um 20-24 dagar samtals fari í leit og sýnatöku, þ.e. 5-6 dagar á skip. Að því loknu taka við bergmálsmælingar. Reyndar mun Dröfnin RE hefja bergmálsmælingar í Breiðafirði nú þegar á föstudaginn þar sem vitað er um síld á því svæði. Tvö til þrjú skip fara svo til stofnmælingar um eða eftir helgi en fjöldi þeirra er háður því hvort síld finnist á mörgum svæðum. Þorsteinn sagði að menn á vegum Hafró yrðu um borð í skipunum sem fara í mælingar. Allar upplýsingar verða sendar jafnóðum um gervihnött í land þar sem unnið verður úr þeim um leið og þær berast. Útgerðarmenn leigja Dröfnina til þessa verkefnis en alls er gert ráð fyrir að útgerðarmenn leggi til skip í um 15 daga til stofnmælingar að þessu sinni.

Sjá nánar í Fiskifréttum.