miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stór og fallegur fiskur að veiðast

Guðsteinn Bjarnason
26. júlí 2019 kl. 11:00

Beitir siglir til hafnar á Neskaupstað. MYND/Þorgeir Baldursson

Makrílvertíðin fer betur af stað en í fyrra, hvert skipið á fætur öðru kemur með makríl að landi.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, sigldi skipi sínu til hafnar í Neskaupsstað í byrjun vikunnar með 870 tonn af makríl. Skip Síldarvinnslunnar hafa síðustu daga landað afla þar hvert á fætur öðru.

Margrét EA kom þangað með 840 tonn á laugardag og Börkur NK kom með 600 tonn á þriðjudagsmorgun.

„Það gekk bara ágætlega í túrnum,“ sagði Tómas þegar Fiskifréttir náðu tali af honum á þriðjudag. Hann var þá að fylgjast með lönduninni og reiknað með að fara sem fyrst til veiða aftur.

„Það getur verið einhver smá biðstaða út af því hvað skipin eru mörg. Vinnslan þarf að hafa undan alla vega.“

Uppsjávarskipin eru að veiðum sunnan við land núna, en Tómas gerir sér vonir um að makríllinn fari að fikra sig austur eftir.

„Við byrjuðum túrinn í Háadýpinu austan við Vestmannaeyjar og svo færðist þetta austur eftir. Við enduðum austan við Skeiðarárdjúpið,“ segir hann um túrinn.

Veiðist á blettum
Hann segir að makríllinn hafi verið á blettum, sums staðar hafi vel veiðst en annars staðar hafi makríllinn ekki látið sjá sig.

„Þetta voru svona blettir, en við höfum áður verið í svona fiskeríi. Í fyrra var lítið sem okkur fannst vera austar, en núna virðist alla vega vera eitthvað með suðurströndinni.“

Hann segir vertíðina hafa farið betur af stað en í fyrra.

„Við getum reyndar kannski hafa misst af einhverju í fyrra vegna þess að þá fórum við seinna af stað. Við þurftum síðan að sækja svolítið langt, þurftum að fara í Smuguna og svoleiðis og náðum vart kvótanum.“

Allt lítur það betur út núna.

Þokkalega bjartsýnir
„Skipin eru öll í þessu núna og ég held að það sé almennt ágætis veiði. Menn eru þokkalega bjartsýnir. Við vonum að það verði gott áframhald á þessu og að við getum veitt svolítið meira fyrir austan.“

Hann segir makrílinn sem veiðist hafa verið góðan.

„Hann er svolítið misjafn, en þetta er stór og fallegur fiskur. Hann er að styrkjast smátt og smátt, verður þéttari í sér eftir því sem líður á vertíðina, en þetta er alveg stærsta gerðin af makríl að stórum hluta.“

Beitir er eitt öflugasta uppsjávarskip flotans, tekur 3.200 tonn í lest og hefur undanfarin ár landað samtals um 7 til 8 þúsund tonnum af makríl árlega.

Venus NS og Víkingur AK, skip HB Granda, hafa einnig verið að veiðum fyrir sunnan land og siglt til Vopnafjarðar með aflann. Venus hefur tvívegis landað makríl þar og Víkingur tvisvar, þannig að makrílvinnsla í uppsjávarfrystihúsi HB Granda þar er komin í fullan gang.

Svipaða sögu er að segja frá Fáskrúðsfirði þar sem Hoffellið, skip Loðnuvinnslunnar, kom með fyrsta afla vertíðarinnar í land 15. júlí, alls 790 tonn af makríl.

Makrílkvóta var úthlutað til bráðabirgða í lok júni samkvæmt nýjum lögum sem samþykkt voru á þingi í vor. Lokaúthlutunar ársins er að vænta eigi síðar en 10. ágúst.