þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stór og fallegur „íslenskur“ kolmunni

Guðjón Guðmundsson
23. október 2020 kl. 09:48

Bjarni Ólafsson var fyrsta skipið sem landaði kolmunna á þessari vertíð. Mynd/Þorgeir Baldursson

Síld að renna saman við kolmunnann fyrir austan.

Heldur hefur dregið úr kolmunnaveiði rétt austur af Norðfjarðardýpi en Bjarni Ólafsson AK hafði fengið þar 1.880 tonn af vænum kolmunna í fimm holum um miðja síðustu viku.

Á þriðjudag lönduðu tvö uppsjávarskip Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað. Beitir NK kom með 700 tonn af kolmunna og 800 tonn af síld og Bjarni Ólafsson AK með um 870 tonn af kolmunna.

Þá var Börkur NK væntanlegur til löndunar með um 940 tonn af síld og 430 tonn af kolmunna. Unnið er í fiskiðjuverinu á tveimur vöktum í stað þriggja eins og þegar síldarvertíðin stóð sem hæst.

Fiskur eins og í gamla daga

Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að heldur hafi dregið úr kolmunnaveiðinni  og ástæðan er sú að síld hafi flætt yfir kolmunnaslóðina. Runólfur var nýkominn inn til löndunar í blíðuveðri á Bjarna Ólafssyni með tæp 900 tonn af kolmunna þegar rætt var við hann.

Bjarni Ólafsson kom inn fyrr til löndunar en áætlað var vegna bilunar í bremsu á togspilinu. Runólfur sagði bilunina ekki alvarlega, einungis þyrfti að skipta um bremsuborða.

„Við vorum hérna úti í kantinum á Norðfjarðardýpinu. Það er reitingur af kolmunna þarna en síldin er að ganga yfir svæðið. Það er mikil síld uppi á kantinum og við erum að reyna að forðast hana. Við erum að reyna að einbeita okkur að kolmunnanum og það veldur vandræðum þegar síldin er að flækjast fyrir. Við vitum aldrei hvenær því lýkur og við verðum bara að vakta svæðið,“ segir Runólfur.

Þetta var fjórði kolmunnatúrinn hjá Runólfi og áhöfn og sá stærsti var í síðustu viku þegar 1.880 tonn fengust í kantinum við Norðfjarðardýpið. Runólfur sagði að þetta hefði verið stór og fallegur kolmunni.

„Þetta var fiskur eins og við vorum að fá hérna í gamla daga. Ég held að þessi kolmunni sé staðbundinn hérna við Ísland. Þetta er ekki þessi venjulegi kolmunni sem við höfum verið að veiða í gegnum árin. Þessi fiskur er mun stærri. Maður veit ekki hvort hann haldi til þarna en það virðist sem einhver skilyrði séu fyrir hann núna á svæðinu. Í gegnum árin hefur veiðst hellingur af kolmunna á þessu svæði en það hefur ekki verið á vísan að róa.“

Framhaldið óljóst

Runólfur sagði óljóst með framhaldið; hvort haldið verði áfram að með kolmunnann eða farið í eitthvað annað. Veiðar innan færeysku lögsögunnar hefjast þó ekki fyrr en um miðjan næsta mánuð. Veiðin var léleg þar í fyrra enda nánast alltaf vitlaust veður en árið þar á undan gekk vel.

Bjarni Ólafsson AK er í eigu útgerðarfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. á Akranesi og Síldarvinnslunnar. Runólfur er nú eini fulltrúi þess félags eftir að bróðir hans, Gísli, fór út úr félaginu fyrir tveimur árum. Runólfur kveðst ekkert vera að hætta sjálfur og engin þrýstingur sé af hálfu Síldarvinnslunnar að hann selji sinn hlut.

„Það hefur verið frábært samstarf við Síldarvinnsluna alveg frá fyrsta degi. Samstarfið hefur nú staðið yfir í nærri aldarfjórðung og hefur verið farsælt,“ segir Runólfur.