laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Of stór til að blokkfrysta

3. apríl 2014 kl. 10:51

Fiskinum hrúgað í lestina.

Heilbrigðiseftirlit Færeyja stöðvar sölu á óinnpökkuðum fiski til manneldis

Heilbrigðiseftirlitið í Færeyjum hefur kyrrsett um 70 tonn af frystum óinnpökkuðum fiski í frystilest togarans Ran sem er nýkominn til hafnar í Færeyjum. Eftirlitið heimilar ekki sölu á fiskinum til manneldis. Þetta kemur fram í frétt í færeyska sjónvarpinu.

Að sögn talsmanna útgerðarinnar var fiskurinn of stór til að hægt væri að frysta hann í blokk og var honum því hrúgað í lestina. Strangar kröfur eru gerðar um frystingu og geymslu matvæla í Færeyjum. Eftir rannsókn heilbrigðiseftirlitsins í gær kom í ljós að óinnpakkaði fiskurinn um borð í Ran stenst ekki þær kröfur. Skipið hafði leyfi til að selja aflann til Kína en það leyfi hefur verið afturkallað.

Í janúar síðastliðnum fékk togarinn Ran heimild færeyskra stjórnvalda til að vera móðurskip fyrir togaranna Phønix sem veiddi á sóknardögum á Flæmingjagrunni. Var sú ákvörðun umdeild á sínum tíma þar sem hún var talin mismuna færeyskum skipum sem veiddu á þessu svæði.