sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóra síldin fannst í Síldarsmugunni

29. september 2009 kl. 15:00

Talin hafa þar vetursetu

Frá því er skýrt í norskum fjölmiðlum að stórsíldin sé loksins fundin, ekki þó í norsku lögsögunni sem vænta má á þessum tíma heldur suður í Síldarsmugunni. Færeyska skipið Finnur Fríði fann síldina og fékk hvorki meira né minna en 4,43 krónur norskar fyrir kílóið sem leggst á tæpar 95 krónur íslenskar. Vísindamenn velta því nú fyrir sér hvort einhver hluti norsk-íslenska síldarstofnsins hafi vetursetu í Síldarsmugunni.

Þessar upplýsingar koma fram á vef IntraFish. Þar segir ennfremur að norski síldarflotinn muni á næstu dögum leita á miðin vestur á bóginn í staðinn fyrir að halda í norðurátt. Meðalverð á síldinni hjá norska flotanum í síðustu viku var í kringum 2 krónur norskar á kílóið og síldin var um 280-310 grömm að þyngd. Síldin sem Finnur Fríði landaði var að meðaltali 397 grömm. Aflaverðmæti hans í framangreindum túr losaði 3 milljónir norskar eða 60 milljónir íslenskar.

Haft er eftir norskum vísindamönnum að ekki komi á óvart að stóra síldin veiðist suður í Síldarsmugunni. Þeir segja að vart hafi orðið við síld þar fyrr í sumar og í fyrra hafi stóra síldin einnig veiðst þar á sama tíma og nú. Leif Nöttestad hjá norsku hafrannsóknastofnuninni segist spenntur að fylgjast með þróuninni. ,,Við teljum að þetta svæði geti verið nýtt vetursetusvæði fyrir stórsíldina. Fleiri möguleikar eru þó í stöðunni. Hún getur líka dreift sér þótt við teljum líklegra að hún þétti sig og hafi þarna vetursetu,“ segir Leif Nöttestad.