föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóraukin lán og ábyrgðir norska ríkisins til fyrirtækja í sjávarútvegi

28. janúar 2009 kl. 13:18

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að stórauka framlög ríkisins til lána og ábyrgða í gegnum norska nýsköpunarsjóðinn, Innovation Norge. Þessar aðgerðir eru liður í brýnni áætlun til þess að styrkja stöðu norskra sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja og ábyrgjast greiðslur á afurðum þeirra á erlendum mörkuðum. Aðgerðirnar voru kynntar af Helgu Petersen, sjávarútvegsráðherra Noregs nýlega, að því er fram kemur á vef LÍÚ. Stutt er síðan norsk stjórnvöld juku heimildir norsks ábyrgðartryggingasjóðs um sem svarar 900 milljörðum íslenskra króna. Þetta var gert til að viðhalda eðlilegri starfsemi á ýmsum mikilvægum markaðssvæðum norskra sjávarafurða utan Evrópusambandsins. Aðgerðirnar norskra stjórnvalda fela m.a. í sér að lána- og ábyrgðarheimildir norska nýsköpunarsjóðsins, eru rýmkaðar verulega. Þannig verður heildarupphæð nýsköpunarlána aukin úr sem svarar 5,4 milljörðum íslenskra króna í um 16 milljarða og heildarupphæð ábyrgða er aukin úr sem svarar 720 milljónum íslenskra króna í um 5,7 milljarða. Þá er einnig lagt til að framlög til afskriftasjóðs verði aukin til að mæta rýmkuðum heimildum. Talsverður hluti ábyrgða sjóðsins hefur verið veittur fyrirtækjum í norskum sjávarútvegi og fiskeldi. Með rýmri heimildum gefst einnig svigrúm til að ábyrgjast rekstrarlán samhliða frekari útfærslu ábyrgðarsamninga á milli sjóðsins og norskra fisksölufyrirtækja. Peteresen sagði brýnt að hefja viðræður um ábyrgðarskilmála. Ráðherrann sagði einnig í fréttatilkynningu, að stjórnvöld legðu til að sem svarar 360 milljónum íslenskra króna yrði varið til að efla Marint-sjóðinn um aukna verðmætasköpun sjávarafurða. Þeim fjármunum verður m.a. varið til markaðssóknar sjávarafurða sem misst hafa markaðshlutdeild vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar, segir ennfremur á heimasíðu LÍÚ.