þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóraukin sókn í sjávarútvegstengt nám

11. nóvember 2014 kl. 14:16

Skipstjórnarmaður í brúnni. (Mynd: Kristinn Benediktsson).

Um 250 manns í skipstjórnarnámi samanborið við 100 árið 2008

Aðsókn í sjávarútvegstengt nám hefur vaxið stöðugt frá árinu 2008 á sama tíma og fjölbreytni námsleiða á því sviði hefur aukist, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sjávarklasans. 

Á framhaldsskólastigi eru í boði námsleiðir í skipstjórn, vélstjórn, bátasmíði, netagerð og fisktækni. Á háskólastigi finnast námsleiðir í auðlindafræði, haf- og strandsvæðafræði, sjávartengdri nýsköpun, fiskeldi,matvælafræði og sjávarútvegsfræði. Í skýrslunni er bent á að árið 2013 hafi Háskólinn í Reykjavík auk þess boðið upp á sérstakt nám fyrir stjórnendur í sjávarútvegi. Heildarfjöldi nemenda í þessar námsbrautir jókst um 73% milli áranna 2008 og 2013. 

Á undanförnum árum  hefur nemendum fjölgað mest í skipstjórnarnámi við Tækniskólann en þar stunda nú um 250 manns nám samanborið við tæplega 100 manns árið 2008. Þar að auki hefur fjöldi nemenda í sjávarútvegsfræði ekki verið meiri síðan 1997 en árið 2013 lögðu 62 stund á námið.