þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóraukinn kolmunnakvóti á næsta ári

28. september 2012 kl. 12:18

Frá kolmunnaveiðum. (Mynd: Hlynur Ársælsson).

Hlutur Íslendinga verður 113.000 tonn.

 

Ráðgjafanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) leggur til að kolmunnaafli í NA-Atlantshafi verði aukinn úr 391.000 tonnum í ár í 643.000 tonn á því næsta. Aukningin er 64%. 

Hlutdeild Íslands í heildarkvótanum sem er 17,6% skilar okkur 113.000 tonn í stað 69.000 tonna. Þetta er reyndar ekki mikið í samanburði við kolmunnaafla Íslendinga fyrir nokkrum árum sem komst hæst yfir hálfa milljón tonna, en samt skref í rétta átt. 

Um ástand kolmunnastofninn segir ICES: 

„Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í um 7 milljónir tonna á árunum 2003 og 2004, en fór minnkandi síðan til ársins 2010 vegna lélegrar nýliðunar. 

Árgangar 2005 til 2008 eru allir metnir nálægt sögulegu lágmarki. Mjög lítill afli árið 2011 og svo góð nýliðun síðustu tvö árin hefur orðið til þess að snúa þessari þróun hrygningarstofns við og er hann metinn 3,8 milljónir tonna árið 2012, þ.e. einni milljón tonnum stærri en árið 2011. 

Vísbendingar, bæði úr leiðöngrum og afla, eru um að árgangar 2010 og 2011 séu stórir, en hversu stórir er ekki enn hægt að segja til um. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 5,7 milljónir tonna árið 2014 ef afli verður samkvæmt aflareglu.“

Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.