þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stórframkvæmd á hafnarsvæðinu í Reykjavík

23. nóvember 2012 kl. 16:47

Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda tekur fyrstu skóflustunguna. (Mynd: Kristján Maack).

HB Grandi byggir frystigeymslu og flokkunarhús.

Nú í morgun tók Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, fyrstu skóflustunguna að nýrri frystigeymslu og flokkunarhúsi sem rísa munu austan við fiskiðjuver félagsins á Norðurgarði í Reykjavík. Framkvæmdir hefjast á næstunni og stefnt er að því að taka byggingarnar í notkun í lok maí nk, að því er fram kemur í frétt á vef HB Granda. 

Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, framleiðslustjóra HB Granda og yfirmanns landvinnslu í Reykjavík og á Akranesi, verður nýja frystigeymslan 2.600 fermetrar að grunnfleti og í henni verður rými fyrir 5.000 til 6.000 tonn af frystum afurðum. Flokkunarrými verður sambyggt frystigeymslunni og verður það 1.200 fermetrar að stærð.  Hönnun og eftirlit er í höndum AVH arkitekta og verkfræðistofu.  Búið er að semja við ÍAV um byggingu hússins og jarðvegsvinnu og Kælismiðjuna Frost, sem útvegar frystikerfið. Rafeyri sér um allt rafmagn fyrir byggingarnar og frystikerfin.

Nýja frystigeymslan mun bæta út brýnni þörf því auk þess sem HB Grandi leigir frystirými í Örfirisey þá hafa frystar afurðir frá frystitogurum og frystihúsi verið geymdar í frystigámum og leigugeymslum bæði innanlands og erlendis.