mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stórútgerðirnar vilja heimildirnar ekki bætur

Guðjón Guðmundsson
12. janúar 2019 kl. 12:00

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna.

Fjárfesting minni útgerða vegna makrílveiða er veruleg. Félag makrílveiðimanna liggur yfir stöðunni en telur að stórútgerðin vilji ekki bætur frá ríkinu heldur að þeim verði úthlutað þeim heimildum sem aðrir hafa fengið til afnota í nærri áratug.

Fjárfesting minni útgerða vegna makrílveiða er veruleg. Félag makrílveiðimanna liggur yfir stöðunni en telur að stórútgerðin vilji ekki bætur frá ríkinu heldur að þeim verði úthlutað þeim heimildum sem aðrir hafa fengið til afnota í nærri áratug.

Sem kunnugt er gekk dómur fyrir Hæstarétti Íslands í byrjun desember í máli Hugins ehf. og Ísfélags Vestmannaeyja gegn íslenska ríkinu sem var dæmt skaðabótaskylt gagnvart útgerðarfélögunum vegna minni úthlutunar á aflaheimildum til þeirra á makríl á árunum 2011 til 2014 en þær hefðu átt lagalegan rétt til miðað við veiðireynslu. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt framhald málsins óljóst en þó sé ljóst að veiðistjórnun á makríl þarfnist endurskoðunar.  Hvort þetta leiði til þess að minni útgerðir sem ekki höfðu aflað sér veiðireynslu áður en kom til úthlutana á aflaheimildunum missi þar með langstærstan hluta sinna heimilda er sömuleiðis óljóst.

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, segir sína menn enn vera að melta tíðindin. Ljóst sé að hið opinbera hafi hvatt smærri útgerðir og eigendur krókabáta til þess að fjárfesta í búnaði til makrílveiða enda hafi verið vilji til þess að gefa fleiri útgerðum tækifæri til veiða en þeim fáu uppsjávarfyrirtækjum sem höfðu aflað sér veiðireynslu, aðallega þegar makríll fékkst sem meðafli við síldveiðar fjarri landi. Fjárfesting minni útgerðaraðila vegna veiðanna hefur verið veruleg. Unnsteinn gerir út Sigga Bessa SF frá Hornafirði og sumarið og haustið 2016 veiddi hann til að mynda 516 tonn af makríl. Hann segir að makrílveiðarnar standi undir um það bil fjórðungi tekna útgerðarinnar. Svipað á við um fjölmargar aðrar minni útgerðir.

Hluti skaðabótakrafna fyrndur

Unnsteinn segir að það verði ekki fram hjá því litið að fyrrverandi  sjávarútvegsráðherrar  hafi farið á svig við lög með ákvörðun sinni um að kvótasetja ekki makríl á löglegan hátt .

Ráðherrarnir höfðu möguleika á að kvótasetja makríl í reglugerð 2011 eða með sérlögum eftir 2011 og koma þannig í veg fyrir skaðbótakröfu útgerðanna, en einungis Sigurður Ingi Jóhannsson gerði á þvi tilraun sem var hafnað af þingi og þjóð. Sérlög um kvótasetningu á makríl er nú orðinn eini raunhæfi kostur Alþingis.

„Vegna þessara misgjörða og hálfkáks er ríkissjóður nú skaðabótaskyldur. Útgerðirnar vilja hins vegar ekki að ríkið greiði þeim skaðabætur heldur að þeim verði úthlutað þeim heimildum sem aðrir hafa fengið til afnota í nærri áratug. Talsverður hluti skaðabótakrafna útgerðanna er líklega fyrndur og verður bótakrafan því ekki talin í tugum milljarða heldur líklega nær þrem en tíu milljörðum. Uppsjávarútgerðirnar hafa því meiri hagsmuni af heimildunum en bótunum,“ segir Unnsteinn.

Hann segir að yfir hundrað útgerðir króka-, ísfisk- og frystiskipa um allt land hafi stundað veiðar á makríl frá árinu 2010 á grundvelli núverandi stjórnar makrílveiða og hafi réttmætar væntingar til þess að veiðum verði haldið áfram. Félag makrílveiðimanna hugi að hagsmunum sinna félagsmanna og ekki sé hægt að útiloka að farið verði fram á skaðabætur verði þeir sviptir veiðiheimildum sem þeir hafi haft allt frá árinu 2010.

Í fréttatilkynningu frá Félagi makrílveiðimanna segir: „Félag makrílveiðimanna telur óásættanlegt að færa einhvern hluta heimilda félagsmanna sinna á silfurfati til stærstu útgerða landsins. Það væri að fleygja barninu út með baðvatninu ef stjórnkerfi makrílveiða til síðustu átta ára væri kollvarpað til að örfá skip gætu veitt allan makrílkvóta Íslendinga. Mikilvægt er að stöðva skaðabótaklukku dóms Hæstaréttar og hvetur því Félag makrílveiðimanna Alþingi til að festa núverandi stjórn veiða í sessi með sérlögum.“