laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðar á svæði A: Tóku helming aflaheimilda í maí á einni viku

16. maí 2010 kl. 13:22

Strandveiðar hófust mánudaginn 10. maí og er veiðum þessa vikuna lokið þar sem ekki er heimilt að róa föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Föstudaginn 14. maí hafði Fiskistofa gefið út 407 leyfi til strandveiða og enn er töluvert af umsóknum í vinnslu.

Mest hefur verið sótt í leyfi á svæði A, Eyja- og Miklaholtshreppur - Súðavíkurhreppur, en þar hafa verið gefin út 172 leyfi, næst kemur svæði D, Hornafjörður - Borgarbyggð, þar sem gefin hafa verið út 122 leyfi.

Á þessari fyrstu viku hélt 321 bátur til veiða og alls voru 726 landanir. Endanlegri vigtun hefur ekki verið lokið í öllum tilvikum en um 430 tonn af afla strandveiðibáta höfðu verið fullvigtuð á föstudaginn. Eins og við var búast miðað við skiptingu leyfa fóru veiðar skarpast af stað á svæði A en þar var í vikunni 401 löndun og fullvigtuð hafa verið 267 tonn af 499 tonna heimild á svæðinu í maí mánuði. Veiðar á svæði A eru því rúmlega hálfnaðar. Afli strandveiðibáta er að mestu þorskur en tæpum 25 tonnum af ufsa hefur jafnframt verið landað auk minna magns í öðrum tegundum.

Sjá nánar www.fiskistofa.is