sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðar: Búið að gefa út 130 leyfi

29. júní 2009 kl. 12:05

,,Við róum öllum árum að því að afgreiða fljótt og vel þær umsóknir um strandveiðileyfi sem borist hafa. Fram að þessu hafa um 270 umsóknir verið skráðar inn og búið er að gefa út 130 leyfi á þessari stundu,” sagði Helga Sigurrós Valgeirsdóttir á Fiskistofu í samtali við Fiskifréttir nú rétt fyrir hádegið.

Hefja mátti frjálsar handfæraveiðar, svokallaðar strandveiðar, í gær, sunnudag, en þá voru um 70 umsækjendur komnir með leyfi. Ekki lá fyrir hjá vaktstöð siglinga hversu margir bátar í þessu kerfi hefðu hafið veiðar.

Óljóst er hversu margir ætla að nýta sér þennan veiðimöguleika því umsóknir eru enn að berast Fiskistofu. Veiðileyfið kostar 17.500 krónur.

Eins og áður hefur komið fram eru 3.955 tonn af þorski ætluð til strandveiðanna og skiptast þau milli fjögurra landsvæða. Veiða má að hámarki 800 kg á hvern bát á sólarhring og má veiðiferðin ekki taka nema 14 tíma. Fjórar handfærarúllur eru leyfðar að hámarki um borð í hverjum báti. Ekki má veiða á föstudögum og laugardögum.

Báturinn þarf að vera skráður sem fiskibátur og vera með sjálfvirkan fjareftirlitsbúnað. Þeir sem fá leyfi til strandveiða afsala sér leyfi til annarra atvinnuveiða það sem eftir er fiskveiðiársins.