sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðar: Fyrstu leyfin hafa þegar verið afgreidd

26. júní 2009 kl. 12:00

Mikið annríki hefur verið á Fiskistofu eftir að reglugerð um strandveiðar tók gildi, en Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra undirritaði hana formlega við smábátahöfnina í Reykjavík í gær. Fyrstu leyfin hafa þegar verið afgreidd þannig að handhafar þeirra geta byrjað veiðar næsta sunnudag, en veiðibann er á föstudögum og laugardögum. 

Auðunn Ágústsson forstöðumaður veiðiheimildasviðs Fiskistofu tjáði Fiskifréttum nú fyrir hádegið, að búið væri að afhenda nokkur veiðileyfi en stórir staflar umsókna biðu afgreiðslu. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því á þessari stundu hversu margar umsóknir hefðu borist.

Mörgum finnst að fyrirkomulag vegna greiðslu veiðileyfanna sé nokkuð þunglamalegt og seinlegt og það hefur valdið óánægju. Því hefur Fiskistofa boðið upp á að þeir sem koma á Fiskistofu og greiða gjaldið með peningum eða framvísa bankakvittun fyrir greiðslu geti fengið leyfið afhent.

Á vef Fiskistofu eru nánari upplýsingar um strandveiðarnar og umsóknir þeirra vegna. Sjá HÉR