mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Strandveiðar fara rólega af stað

11. maí 2018 kl. 12:00

Einungis á D-svæði hafa fleiri bátar farið af stað en i fyrra. Annars staðar er fækkun.

Töluvert færri bátar eru byrjaðir á strandveiðum en á sama tíma í fyrra. Fjölgun er einungis á D-svæðinu þar sem 69 bátar voru búnir að landa í gær, en á sama tíma í fyrra hafði 41 bátur landað afla eftir þriggja daga veiðar.

„Fjölgunin er líklega mest á Reykjanesi og í Faxaflóanum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „En það er líka töluverð þátttaka og betri en í fyrra bæði í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði.“

Á hinum svæðunum eru færri bátar farnir af stað, en fyrstu dagarnir eru kannski ekki marktækir fyrir sumarið.

„Þetta er líka núna þannig að það þurfa ekki allir að sperra sig strax í upphafi. Það getur skýrt þessa stöðu,“ segir Örn og vísar til þess að fyrirkomulagi strandveiða verður annað í sumar en verið hefur.

Hann telur að flestir séu nokkuð ánægðir með breytingarnar og telji sig geta náð heildaraflanum.

„En allt veldur það á því að þessir 48 dagar haldi svo menn getir róið út ágústmánuð.“

Hann segir aflann minni en í fyrra, enda færri bátaar að veiða. Hins vegar hafi gengið vel að ná aflanum þannig að það virðist ekki vera vandamál. Áhyggjur beinast hins vegar að verðinu, sem er óþægilega lágt enn sem komið er.

Á vef Landssambands smábátaeigenda er að finna nánari samantekt um stöðu strandveiða eftir fyrstu þrjá dagana bæði nú í ár og á síðasta ári.

gudsteinn@fiskifrettir.is