mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stýrir 500 manna fyrirtæki

Guðjón Guðmundsson
1. janúar 2019 kl. 12:00

Jóhannes Pálsson við vinnu sína. Aðsend mynd

FF Skagen í Danmörku er einn af umsvifamestu lýsis- og fiskimjölframleiðendum heims og auk þess stærsti síldarframleiðandi Danmerkur. Framkvæmdastjóri þessa tæplega 500 manna fyrirtækis er Íslendingurinn Jóhannes Pálsson.

FF Skagen í Danmörku er einn af umsvifamestu lýsis- og fiskimjölframleiðendum heims og auk þess stærsti síldarframleiðandi Danmerkur. Framkvæmdastjóri þessa tæplega 500 manna fyrirtækis er Íslendingurinn Jóhannes Pálsson sem hefur búið og starfað í Noregi og Danmörku frá árinu 2008, þar af í fimm og hálft ár sem framkvæmdastjóri yfir framleiðslu hjá Aker Seafoods sem var í eigu Kjeld Inge Rökke, auðugasta manns Noregs.

Jóhannes er fæddur 1959 í Reykjavík. Hann sótti framhaldsmenntun í véla- og rekstrarverkfræði í Danmörku. 1987 fluttist hann til Reyðarfjarðar og rak þar ráðgjafarfyrirtækið Hönnun og ráðgjöf sem þjónustaði meðal annars Síldarvinnsluna og fleiri sjávarútvegsfyrirtæki. Hann réðst svo til Síldarvinnslunnar sem framkvæmdastjóri framleiðslu árið 2001 og starfaði þar til ársins 2008 þegar hann fluttist til Noregs.

Þegar Jóhannes starfaði hjá Aker Seafoods var fyrirtækið með framleiðslu og fiskkaup á fjórtán stöðum í Noregi, þremur stöðum í Danmörku og tveimur í Frakklandi. Kjell Inge Rökke vildi slíta í sundur með formlegum hætti vinnsluhluta fyrirtækisins og útgerðina, annars vegar í Havfisk og hins vegar Norway Seafoods, en mætti fyrirstöðu hjá norskum yfirvöldum hvað það varðar. Það varð til þess að hann ákvað að draga sig út úr greininni og selja fyrirtækin. Áður en af því varð vildi Rökke selja Norway Seafoods í Frakklandi og þegar það spurðist út sagði framkvæmdastjóri fyrirtækisins í Frakklandi upp störfum og Jóhannes tók við. Norway Seafoods í Frakklandi var með landeldi á tæplega 5.000 tonnum af urriða á ári og lax- og bolfiskvinnslur í Boulogne Sur Mer og Castets. Jóhannes stýrði fyrirtækinu en tók um leið fullan þátt í söluferlinu á starfsemi Aker Seafoods í Frakklandi.

Til Jótlands

Jóhannes segir hafa verið gaman að vinna með Kjeld Inge Rökke. Þeir höfðu skrifstofu í sama húsi og hann var drífandi persónuleiki en skipti sér ekki mjög mikið af rekstri Aker Seafoods.

„Þegar söluferlinu var að ljúka og allt var komið á hreint benti góður vinur mér á að verið væri að leita að manni til að stjórna FF Skagen. Ég sótti um og var ráðinn sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins í lok ársins 2013 og ég hóf störf hér í Skagen 1 janúar 2014“ segir Jóhannes.

FF Skagen er öflugt fyrirtæki á sínu sviði. Þegar Jóhannes kom þar inn voru eigendahóparnir tveir. Annars vegar FF Skagen Fond og hins vegar danskir og sænskir útgerðarmenn. Tæpu einu ári eftir að Jóhannes hóf störf keypti FF Skagen lýsis- og fiskimjölvserksmiðju í Hanstholm sem var í eigu færeyska fyrirtæksins Havsbrún. Reksturinn hafði ekki gengið sem skyldi í Hanstholm og varð að samkomulagi að FF Skagen tæki yfir reksturinn og Havsbrún fengi greitt fyrir með hlutabréfum í FF Skagen. Í dag á því FF Skagen Fond 55% í félaginu, útgerðarmenn eiga 26%  og Havsbrún 19%.

FF Skagen stækkar

Frá því Jóhannes réðst til starfa hafa umsvif FF Skagen aukist jafnt í mjöl- og lýsisvinnslu en ekki síður í vinnslu á síld. Árið 1999 hóf FF Skagen samstarf við sænska fyrirtækið Västkustfisk SVC AB um rekstur SweDan Pelagic sem rak landfrystingu i Vastervik á austurstönd Svíðþjóðar. Árið 2015 eignaðist það fyrirtæki síldarvinnsluna Paul Matsson i Ellös, sem er á vesturströnd Svíþjóðar og í fyrra keypti fyrirtækið síðan síldarverksmiðju sem hét Nilsens Fiskeeksport og er í Aalbæk sem er í næsta nágrenni við Skagen.

„Í framhaldi af kaupunum vildi ég skýra Iver Esperssen, forstjóra Skagerak Pelagic, frá áformum okkar. Þeir eru næstu nágrannar okkar hér í Skagen, stærstu síldarframleiðendur í Danmörku og höfðu verið góðir viðskiptavinir okkar. Ég útskýrði fyrir honum að kaup SweDan Pelagic á Nilsens Fiskeeksport í Aalbæk væru ekki hugsuð sem samkeppni við Skagerak Pelagic heldur eðlilegt skref í okkar vegferð hjá FF Skagen og gæfi möguleika á samstarfi. Þá spurði Esperssen mig: „Hvað viltu þá með okkur?“ Ég sagði honum að ef fyrirtækið væri til sölu, við kæmumst að sameiginlegri niðurstöðu um verð og fjármögnun fengist, þá væri áhugi hjá FF Skagen að kaupa Skagerak Pelagic. Þetta gekk allt eftir og gengið var frá kaupunum. Úr varð fyrirtæki sem nú heitir Scandic Pelagic sem kaupir um 130 þúsund tonn af síld á ári og flakar á þremur stöðum; þ.e. í Skagen, nágrannabænum Aalbæk og í sænska bænum Ellös.“

Scandic Pelagics er að 70% í eigu FF Skagen og 30% í eigu Västkustfisk SVC AB. Alls starfa um 300 manns í síldarvinnslunni og 200 manns í mjöl- og lýsisvinnslunni í Skagen og Hanstholm. Scandic Pelagics framleiðir fullunnar vörur úr síld sem eru tilbúnar til að vera pakkaðar í neytendaumbúðir. Viðskiptavinir setja sín vörumerki á pakkningarnar en Scandic Pelagics er ekki í smásölu. Stærstu markaðarnir eru Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Pólland og Holland. Hráefnið til vinnslunnar er að mestu leyti Norðursjávarsíld ásamt síld úr Skagerak/Kattegat. Síldin er að mestum hluta keypt af dönskum, sænskum, norskum, skoskum og írskum bátum.

Breyttir markaðir

Rekstur Scandic Pelagic er því mjög háður framboði af síld og Jóhannes segir að útlitið fyrir næsta ár sé reyndar ekki mjög bjart. Samkvæmt ráðgjöf fiskifræðinga verða heimilaðar nærri helmingi minni síldveiðar í Norðursjónum á næsta ári. Greinin sé á einu máli um að það magn sem leyft var að veiða á þessu ári hafi á hinn bóginn verið of mikið.

„Sjómenn voru alfarið á móti því að kvótinn á yfirstandandi ári yrði aukinn úr 500.000 tonnum í 600.000 tonn. Útgerðir og vinnslur vildu í kjölfarið að heimilt yrði að geyma 100.000 tonn. En það náðist ekki fram. Ráðgjöfin fyrir næsta ár er tæp 400.000 tonn. Því fylgja einhverjar breytingar en við vitum aldrei hverjar þær verða fyrr en upp er staðið. Framboð hefur yfirleitt áhrif á verð en samt er ekki alltaf svo í okkar grein að verð hækki með minna magni. Og ekki heldur að verð lækki með auknu magni. Þetta sjáum við þegar við skoðum söguleg gögn. Þarna geta haft áhrif aðrar pólitískar ákvarðanir, eins og til að mynda viðskiptaþvinganirnar gagnvart Rússlandi sem hafa ruglað allan markaðinn. Það tekur ákveðinn tíma fyrir markaðinn að jafna sig á slíkum breytingum. Viðskiptabannið hafði reyndar ekki önnur áhrif á okkur en þau að verðlag breyttist annars staðar í Evrópu. Við seldum ekkert inn til Rússlands en verð annars staðar lækkaði, jafnvel þótt magnið væri líka að minnka,“ segir Jóhannes.

Velta 36 milljörðum í mjöl og lýsi

Hann og fjölskyldan hafa nú haldið til á Norður-Jótlandi í rúm fimm ár og þau kunna vel við sig. „Við Elísabet eiginkona mín búum hér í Skagen og krakkarnir ásamt þeirra mökum og barnabörnum búa öll í Álaborg," segir Jóhannes sem unir sér vel þar ytra.

Það er mikil náttúrufegurð á þessum slóðum og þarna eru umsvif mikil í  sjávarútvegi og landbúnaði. Það getur líka blásið í Skagen og það setur Íslendingurinn ekki fyrir sig. Álaborg er ekki fjarri en hún er svipuð að stærð og Reykjavík.

FF Skagen er að velta um það bil 2 milljörðum danskra króna í mjöl- og lýsisframleiðslunni, rúmlega 36 milljörðum ÍSK, og um 800 milljónum í síldarframleiðslu, um 14,5 milljörðum ÍSK. Jóhannes telur að framtíðin sé björt í mjöl- og lýsisvinnslu sem og síldarvinnslunni.

Mikilvægi fóðurframleiðenda

„Framundan eru miklar áherslur á gæði og næringargildi fiskimjöls í fóðuriðnaðinum. Þar skiptir miklu máli gæði próteina, steinefna og fitusýra. Það er alveg ljóst að samkvæmt þeim rannsóknum sem unnið er að og við höfum tekið þátt í þá er eftir meiru að slægjast. Þarna eru undir þeir eiginleikar mjöls sem skipta sköpum við framleiðslu á fóðri. Það hefur komið í ljós að draga má úr lyfjanotkun með aukinni notkun fiskimjöls í fóðurframleiðslu og það gildir jafnt fyrir svína-, kjúklinga- og fiskeldi. Við teljum þess vegna að það sé mikill markaður fyrir mjölið. Það er nokkuð ljóst að aukning á fæðuframleiðslu í heiminum verður í gegnum eldi en ekki er útlit fyrir að það verði mikil aukning í gegnum veiðar, þó enn séu þar mörg tækifæri enn óskoðuð, til að mynda á auknu dýpi sem og ofar í fæðukeðjunni til hafs . Þau prótein sem við framleiðum eru mikils virði fyrir fóðurframleiðsluna og þannig óbeint til manneldis. Auðvitað sveiflast verð á mjöl og lýsi mikið eftir framboði og eftirspurn. Stærsti áhrifavaldurinn á framboðið er auðvitað veiðar á ansjósu í Perú. Kvótinn sveiflast í takt við veðurfyrirbærin El niño og La niña. Þegar eitthvað óvænt gerist hvað þessi fyrirbæri varðar þá annað hvort snarhækkar verðið eða snarlækkar. En eftirspurnin stýrist líka að stórum hluta af því hvaða innblöndun fóðurframleiðendur velja með tilliti til fiskimjöls. Þannig geta fóðurframleiðendur haft áhrif á eftirspurnina svo nemur þúsundum tonna einungis með því að breyta innblönduninni í eldisfóður fyrir fisk, svo dæmi sé tekið, um örfá prósent. Fiskimjöl í fiskafóður hefur verið alveg frá því að vera 50% af fóðrinu niður í það, sem sumir telja gerlegt, að vera alls ekki neitt. Því er ég alls ekki sammála. Engu að síður er innblöndunarhlutfallið komið niður í 15% um þessar mundir. Þetta þýðir að í hverju 1 kg af fóðri eru ekki nema um 150 grömm af fiskimjöli. Á árum áður var þetta hlutfall 500 grömm. Fóðurframleiðendur geta stjórnað þessu hlutfalli og þar með stjórnað eftirspurninni,“ segir Jóhannes.

Á norðurhveli jarðar er vaxandi eftirspurn eftir fóðri fyrir fiskeldi. Laxeldi er víðast hvar að aukast í heiminum en á sama tíma hefur notkun á fiskimjöli í fóðurframleiðslu minnkað. Fyrir 20 árum var notað meira af fiskimjöli til að framleiða helmingi minna af laxafóðri en notað er í dag.

„Laxafóðurframleiðsla hefur á þessum tíma um það bil tvöfaldast en á sama tíma hefur notkun á fiskimjöli minnkað um 10-15%. Þetta hefur áhrif á markaðsverðið og hjálpar fóðurframleiðandanum að fá fiskimjölið á því verði sem honum finnst rétt jafnvel þótt við séum ekki sammála því að það sé rétt verð. Þannig virkar framboð og eftirspurn.“