þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styrkirnir komu eins og himnasending

Svavar Hávarðsson
3. maí 2020 kl. 09:00

Frá afhendingu styrkjanna árið 2018. Ólafur Jón Arnbjörnsson, Bjarni Jónsson, Lilja Alfreðsdóttir, styrkþegarnir Þórunn Eydís Hraundal og Herborg Þorláksdóttir, Marianne Rasmussen-Coulling, Örn Pálsson og Sigurjón Elíasson. Mynd/Fisktækniskóli Íslands

Stjórnendur Íslensku sjávarútvegssýningarinnar lögðu árið 2017 fram veglegan styrk til að stofna námssjóð fyrir nemendur sem stefna á sérhæft framhaldsnám í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík.

Hugmyndin, sem fæddist í kjölfar sýningarinnar árið 2014, grundvallast á þeirri staðreynd að í sjávarútvegi og tengdum greinum eru að skapast fjölmörg ný störf samfara auknum rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun.

Á sama tíma og mikilvægi menntaðs ungs fólks fyrir íslenskan sjávarútveg virðist augljóst hefur á sama tíma verið fjallað töluvert um aðkomu kvenna að greininni – eða kannski frekar skort þar á. Á sama tíma sammælast þeir sem innan sjávarútvegsins starfa að aukin aðkoma kvenna í stjórnun sjávarútvegsfyrirtækja myndi styrkja þau. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja myndi vænkast með meiri þátttöku kvenna í stjórnun þeirra, sagði Agnes Guðmundsdóttir, formaður Félags kvenna í sjávarútvegi, í viðtali við Fiskifréttir fyrir skömmu. Hún segir að verkefnin framundan séu ekki síst þau að auka tengslin við ungt fólk og vekja það til vitundar um þau tækifæri sem sjávarútvegurinn býður upp á.

Vissulega eru fáar konur við sjálfar fiskveiðarnar en þær koma víða við sögu í fiskvinnslu, sölu- og markaðsstarfsemi og í alls kyns rannsóknar- og frumkvöðlafyrirtækjum á sviði sjávarútvegs. Agnes benti á að fjöldi frumkvöðlafyrirtækja hafi sprottið upp undanfarin misseri þar sem konur eru í fyrirsvari.

Hérna má finna augljósan skurðpunkt. Menntað ungt fólk af báðum kynjum er framtíð íslensks sjávarútvegs. Sjávarútvegur hefur breyst og er ekki lengur frumstæður iðnaður þar sem magn skiptir öllu máli. Sjávarútvegur er tæknifag sem krefst nýrra hugmynda í vinnslu, veiðum, markaðssetningu og nýtingu alls þess sem er aflað.

Í þessu samhengi ræddu Fiskifréttir við tvær stúlkur sem hafa stundað nám við Fisktækniskóla Íslands í Grindavík.  Þær hlutu sitt hvort árið styrk frá Íslensku sjávarútvegssýningunni til að afla sér frekari sérmenntunar við skólann, en að því loknu hófu báðar nám á háskólastigi.

Féll fyrir fiskeldinu

Sólveig Dröfn Símonardóttir er 24 ára Hvergerðingur en hefur búið síðustu sex árin í Bíldudal. Hjá henni tóku hlutirnir nokkuð óvænta stefnu, bæði í atvinnulegu tilliti og námi.

„Ég er fædd og uppalin í Hveragerði og gekk þar í skóla. Að loknum grunnskóla fór ég á almenna braut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla en var bara í eina önn. Í september 2013 eignaðist ég dreng sem nú er á sjöunda ári og í sama mánuði fluttum við vestur í Bíldudal. Þar þekktum við ekki mikið til að öðru leyti en því að faðir minn hafði einhvern tímann unnið þar um tíma og kunni því vel. Árið 2015 fékk ég vinnu sem almennur starfsmaður hjá fiskeldisfyrirtækinu Arnarlaxi í Bíldudal sem þá var komið af stað með laxeldi hér. Árið eftir var ég í gæðaeftirliti í vinnslunni og verkstjóri árið 2017. Öll landvinnsla laxeldis Arnarlax er í Bíldudal. Starfsemin hefur vaxið ár frá ári og er burðarstoð í atvinnulífinu hér auk þess að teygja anga sína til nærliggjandi byggðarlaga. Hjá fyrirtækinu starfa ríflega hundrað manns auk fjölmargra starfa hjá ýmsum verktaka- og þjónustufyrirtækjum,“ segir Sólveig Dröfn.

Fisktækni, gæðastjórnun og fiskeldi

Auk þess að vinna í fiskeldi ákvað Sólveig að setjast á skólabekk í Fisktækniskóla Íslands. Hún rifjar upp að fulltrúi frá skólanum hafi komið í heimsókn í Arnarlax og kynnt starfsfólki námsframboð skólans og þá möguleika sem það hefði til þess að stunda nám með vinnu.

„Þetta vakti áhuga minn og ég ákvað að slá til. Skráði mig fyrst í grunnnám í fisktækni og líkaði það mjög vel. Náminu lauk ég á tveimur árum og hélt síðan áfram í gæðastjórnun í eitt ár. Að undanförnu hef ég síðan verið í fiskeldisnámi við Fisktækniskólann.

Það sem hefur auðveldað mér námið í Fisktækniskólanum er að ég hef getað stundað það í fjarnámi með vinnu. Ég hef mætt nokkrum sinnum í lotur í staðarnámi en að öðru leyti hef ég verið í fjarnámi og það hefur gengið vel,“ segir Sólveig og lýkur lofsorði á námið og fyrirkomulag þess. „Námið hefur verið mér afar mikils virði og styrkt stöðu mína á vinnumarkaði. Ég bjó í Reykjavík í eitt ár, frá vori 2018 til vors 2019, en flutti þá aftur vestur og fékk vinnu sem gæðastjóri hjá Íslenska kalkþörungafélaginu hér í Bíldudal. Þetta er útflutningsfyrirtæki í hröðum vexti, með þrjátíu til fjörutíu starfsmenn, og kröfur um vörugæði eru mikil. Stöðlum þarf að fylgja, taka sýni og rannsaka, viðhalda gæðakerfi fyrirtækisins og fleira. Í mínum huga er alveg ljóst að ég hefði ekki fengið þetta starf hefði ég ekki lokið gæðastjórnunarnáminu í Fisktækniskólanum.“

Sólveig Dröfn fékk á síðasta ári 500 þúsund króna styrk úr IceFish menntasjóði Íslensku sjávarútvegssýningarinnar til þess að kosta nám sitt í gæðastjórnun í Fisktækniskólanum. Hún segir að styrkurinn hafi komið eins og himnasending því eftir að hafa lokið fisktæknináminu hafi hún ekki haft fjárhagslega burði til þess að halda áfram og fara í gæðastjórnunarnámið í beinu framhaldi, eins og hún hafði áhuga á. Því hafi hún sótt um þennan styrk frá IceFish og fengið. Styrkurinn hafi gert það að verkum að hún hafi getað farið í gæðastjórnunarnámið og því hafi hún lokið undir lok síðasta árs.

Stefnan tekin á sjávarútvegsfræði

Sólveig lét námið í Fisktækniskólanum ekki duga. Það opnaði dyrnar inn í háskólanám og nýtti Sólveig sér það með fjarnámi á haustönn 2019 í líftækni við Háskólann á Akureyri. Hún hefur látið staðar numið í því í bili en hyggst taka síðar upp þráðinn og horfir þá til þess að fara í fjarnám í sjávarútvegsfræði við HA. „Mig langar að bæta við mig þekkingu og koma mér aftur inn í fiskeldið og takast á við nýjar áskoranir. Það er áhugaverður starfsvettvangur og miklir möguleikar,“ segir Sólveig.

Sólveig segir að þegar hún var yngri hefði hvorki henni eða nokkrum öðrum í kringum hana látið sér koma til hugar að hún myndi verða í krefjandi og áhugaverðum störfum sem tengdust sjávarsíðunni. „Þetta er spennandi starfsvettvangur, bæði í kalkþörungunum og fiskeldinu. Hér í Bíldudal ríkti stöðnun og hnignun en Arnarlax og Íslenska kalkþörungafélagið hafa gjörbreytt stöðunni með öflugri starfsemi og staðan er sú að það vantar húsnæði til þess að fólk geti flutt hingað og sest hér að. Atvinnutækifærin eru til staðar,“ segir Sólveig.

Karlar eru í miklum meirihluta í störfum í fiskeldi en Sólveig segir að kynjahlutfallið sé smám saman að jafnast. Nauðsynlegt sé að kynna þessi störf betur til þess að laða að fleiri konur, ímyndin kunni að vera sú að þetta séu það líkamlega erfið störf að konur ráði ekki við þau en það sé mikill misskilningur. Sólveig segir að með þetta eins og margt annað taki tíma að fá fleiri konur inn í þennan geira atvinnulífsins en hún hafi fulla trú á því að þeim muni áfram fjölga á næstu árum.

Fann mig strax í fiskvinnslunni

Þegar Þórunn Eydís Hraundal var að alast upp í Breiðholtinu í Reykjavík og gekk í Ölduselsskóla og síðar Norðlingaskóla leiddi hún ekki hugann að því að í framtíðinni myndi hún starfa í fiskvinnslu. Hún hafði átt sér þann draum að læra að verða nuddari, fór í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í einn vetur í það nám en sá síðan, þegar á hólminn var komið, ekki fyrir sér að hafa nuddið að atvinnu.

„Ég eignaðist barn og að fæðingarorlofinu loknu fór ég að leita mér að vinnu og sá auglýsingu í blaði um að það vantaði starfsmann hjá fiskvinnslufyrirtækinu Erik the Red Seafood í Hafnarfirði. Ég sótti um, fékk vinnuna og hóf þar störf í febrúar 2016. Ég hafði aldrei unnið í fiski og enginn í kringum mig þekkti nokkuð til fiskvinnslu. Þetta var mér framandi heimur en ég fann strax á fyrsta degi að þetta átti vel við mig. Þarna var mikið um að vera, vinnan fjölbreytt og ég fékk að prófa ólíka hluti í vinnslunni, sem fyrst og fremst var í þorski og ufsa. Fljótlega fór ég að velta fyrir mér hvort mögulega væri hægt að sækja sér einhverja viðbótarþekkingu í fiskvinnslunni og leitaði mér upplýsinga á netinu. Þar fann ég Fisktækniskólann og hringdi strax í hann. Í framhaldinu fór ég í viðtal til Ásdísar V. Pálsdóttur verkefnastjóra hjá Fisktækniskólanum þar sem hún sagði mér frá náminu í Marel vinnslutækni sem ég gæti stundað til hliðar við áframhaldandi vinnu í fiskvinnslunni í Hafnarfirði. Það hentaði mér mjög vel, ég ákvað að slá til og var í því námi árið 2017. Þetta var lotunám og við fórum í eina námsferð til Kaupmannahafnar þar sem við skoðuðum vélar í sýningarhúsi Marels, Progress Point. Námið gaf mér góða innsýn í Marel vélbúnaðinn og um leið öðlaðist ég skilning á ýmsum öðrum fiskvinnsluvélum, sem hefur komið mér að góðum notum,” segir Þórunn.

IceFish styrkurinn gjörbreytti stöðunni

Hún segir að Marel vinnslutæknin hafi kveikt í sér að halda áfram og afla sér frekari þekkingar í fiskvinnslunni. „Gæðastjórnunarnámið í Fisktækniskólanum fannst mér mjög álitlegur kostur en sá ekki fram á að hafa efni á því. Mér var þá bent á þann möguleika að sækja um styrk úr IceFish menntasjóði Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, sem ég gerði og fékk árið 2018 úthlutað fimm hundruð þúsund  króna styrk úr sjóðnum. Hann gjörbreytti stöðunni og gerði mér kleift að fjármagna gæðastjórnunarnámið, sem ég er ævarandi þakklát fyrir, því þetta nám, ásamt náminu í Marel vinnslutækni, hefur hjálpað mér og styrkt mig sem sérhæfðan starfsmann í fiskvinnslu. Auk þess hefur námið í Fisktækniskólanum opnað mér leið í háskólanám,” segir Þórunn.

Starf hjá ÚA – nám í Háskólanum á Akureyri

Eftir að Þórunn lauk gæðastjórnunarnáminu flutti hún norður til Akureyrar undir lok árs 2018. Hana hafði lengi langað að búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins og Norðurland var þar efst á blaði. „Ég er ekki mikið fyrir borgarlífið og langaði til þess að komast í rólegra umhverfi. Þess vegna var engin spurning í mínum huga að flytja norður. Ég sótti um fiskvinnslustörf á Dalvík og Akureyri og bauðst svo vinna hjá ÚA á Akureyri,“ segir Þórunn en áður hafði hún starfað hjá HB Granda, leysti þar m.a. af sem gæðastjóri.

Síðastliðið haust ákvað Þórunn að taka það skref að skrá sig í nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Námið tekur hún í fjarnámi og segir það vel gerlegt en þegar við bætist lærdómur flest kvöld og um helgar sé álagið oft mikið.  „Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrá mig í sjávarútvegsfræðina er fyrst og fremst sú að mig langar í framtíðinni til þess að vera í ábyrgðarstöðum í fiskvinnslunni. Mér finnst í senn gefandi og ögrandi að vera með ábyrgð á ákveðnum hlutum,“ segir Þórunn en í ÚA hefur hún einmitt eftirlit með ákveðnum hluta vélbúnaðar í pökkuninni.

Þórunn sér ekki annað fyrir sér en að hún muni starfa í fiskvinnslu eða einhverju sem tengist fiski á næstu árum. Tækniþróunin sé hröð, eins og í öðrum geirum atvinnulífsins, og áhugavert sé að fylgja henni eftir. Þórunn segist líka hafa áhuga á því að kynnast sjómennskunni og fá tækifæri til þess að sjá hvernig veiðunum sé háttað. Ekki kæmi á óvart þótt Þórunn verði komin á sjóinn einn góðan veðurdag.