föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Styrkur til Royal Greenland sætir gagnrýni

23. september 2009 kl. 12:25

Forsvarsmenn í dönskum fiskiðnaði hafa gagnrýnt harðlega að grænlenska sjávarútvegsfyrirtækið Royal Greenland skuli hafa fengið styrk upp á hálfan milljarð danskra króna (jafnvirði 12,5 milljarða íslenskra króna) frá grænlensku heimastjórninni.

Þeir segja að styrkveitingar af þessu tagi skekki samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum fiskvinnslufyrirtækjum. Styrkurinn til Royal Greenland sé í raun félagslega aðgerð í formi fyrirtækjastyrks.

Jens Tellefsen í Hanstholm formaður Dansk fisk, sem eru samtök fiskvinnslufyrirtækja, segir að danskur fiskiðnaður fái á þessu ári fjórar milljónir danskra króna (jafnvirði 100 milljóna ísl. króna) í opinbera styrki, þar af komi helmingur fjárins frá Evrópusambandinu. ,,Það fara sem sagt tvær milljónir króna af dönsku skattfé til heillar atvinnugreinar á meðan hálfur milljarður er veittur til eins fyrirtækis á Grænlandi,” segir Tellefsen.

Hann segist óttast að hinn mikli ríkisstuðningur til Royal Greenland muni stuðla að því að heilbrigð dönsk fyrirtæki verði undir í samkeppninni og að lokum muni þetta skaða danskan sjávarútveg.

Eitt fyrsta verk nýrrar landsstjórnar Grænlands, sem tók við völdum í sumar, var að leggja fyrir grænlenska landsþingið að veita sjávarútvegsfyrirtækinu Royal Greenland 500 milljóna danskra króna neyðaraðstoð vegna afar erfiðrar rekstrarstöðu fyrirtækisins. Ástæðan var sögð sú, að vegna erfiðrar stöðu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi fyrirtækinu ekki tekist að endurfjármagna lán sem tekin hafi verið.