laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sumarnótt á síðutogara

Guðsteinn Bjarnason
25. desember 2020 kl. 09:00

Síðutogar á ytri höfninni í Reykjavík einhvern tímann á árunum 1915 til 1919. Vinstra megin er Snorri Sturluson RE 134 en hægra megin svo Snorri Goði RE 141. MYND: Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Fyrir rúmri öld skrifaði Guðmundur Björnsson landlæknir forvitnilega lýsingu á því sem fyrir augu bar á nætursiglingu út á Sviðin í Faxaflóa sumarið 1910. Hann stakk fyrstur manna upp á orðinu „togari“.

Guðmundur Björnsson, landlæknir á fyrstu áratugum 20. aldar, kynntist því af eigin raun hversu hættuleg vinnan um borð í hinum nýju síðutogurum gat verið. Til hans komu iðulega sjómenn sem höfðu slasast illa.

Grein hans í Fjallkonunni árið 1910 snerist reyndar einnig um nýyrðið togari, sem hann stakk upp á að nota um botnvörpunga í staðinn fyrir að kalla þá trolara upp á ensku.

Orðið notaði hann reyndar ekki bara um skipin heldur einnig um sjómennina, eins og lesa má nánar um í hliðarefni.

„Þessi skip eru að ýmsu leyti frábrugðin öðrum fiskiskipum. Vinnan er ekki hættulaus. Togarar slasast oft,“ segir Guðmundur í grein sinni. „Margsinnis hafa enskir togarar komið til mín með ljót meiðsli; þeir kenna oftast járnreipunum um slysin; það eru reipin, sem liggja út af skipinu og teyma netið.“

Hann segir frá því að nokkru áður hafi það gerst „á enskum togara, að annar nettaumurinn klipti mann í sundur, af fót og mjöðm öðru megin, svo að maðurinn dó samstundis.“

Þess vegna vildi Guðmundur fá að fara með togara í einn túr: „Mig hefur lengi leikið hugur á að sjá þessa veiðiaðferð, vita, hvort ekki mundi gerlegt að komast hjá þessari meiðslahættu.“

Veitt að næturlagi

Hann segir að um þetta leyti árs séu „íslensku togararnir við veiðar á nóttum, en liggja í höfn á daginn. Fyrir skömmu fór ég út á einum þeirra næturlangt.“

Lýsir hann síðan því sem fyrir augu ber á þeirri næturferð, og byrjar á því að lýsa skipinu nokkuð ýtarlega. Greinilegt er á lýsingunni að margt kemur lækninum þar framandlega fyrir sjónir.

„Togarar eru borðlágir. Lyfting er miðskipa. Í henni er íbúð formanna aftast, þá gangvél skipsins, en fremst, fyrir framan reykberann, stendur stýrisklefi upp úr lyftingunni, með gluggum á alla vegu. Þar er stýrishjólið og þar er skipstjóri jafnan, þegar skipið er á ferð.“

Hann segir síðan að niðri á þilfarinu sé „stórvindan. Henni snýr gufuvjél. Á vinduásnum sitja tvær feiknastórar spólur; um þær er vafið járntaumunum, sínum á hvora spóluna.“

Eins og heljarstór botnlangi

Taumarnir ganga síðan fram eftir þilfarinu „kringum tvo uppstandara úr járni“ og þaðan „aftur á við og út á borðstokk, sinn í hvorn hlera.“ Tvö net eru til taks á þilfarinu og eru þau „í laginu eins og heljarstór botnlangi. Nær opið á milli hleranna og er áfast við þá.“

Þegar toga skal sé öðru netinu varpað útbyrðis og hangir þá „fyrst á munnvikum sínum, sem fest eru sitt við hvorn hlerann“ og taumarnir séu síðan „settir í gegnum kengi á borðstokknum og festir í hlerana, þeim síðan hleypt niður í sjóinn 10 faðma“.

Áfram heldur lýsing Guðmundar og segir hann frá því að skipið sigli áfram og netið dragist eftir botninum, en hlerunum sé „svo hagað, að þeir standa á ská í vatninu og gapa móti straumnum þegar skipið gengur; spyrnir straumurinn þeim út til hliðanna; opnast þá netið og strengist efri vör þess beint milli hleranna; en neðri vörin er miklu lengri; hún slapir niður og lepur það sem fyrir verður á botninum.“

Lýsir hann því síðan þegar pokinn er dreginn upp aftur, fisknum hleypt niður í stíur á þilfarinu og stundum, þegar mikið var í pokanum, hafi þurft að „toga upp veiðina í tvennu lagi; er þá skipið skrúfað ögn aftur á bak“ og bandinu brugðið um miðjan pokann, „veiðin helminguð, pokabotninn innbyrtur, opnaður, tæmdur, lokað aftur, fleygt út, til að taka í sig það sem eftir var, og það svo innbyrt á sama hátt.“

Sé það talað um að fengist hafi tveir pokar, en þegar best lætur „fá þeir 3 eða 4 poka í einum drætti.“

Vesalings sílið

Togarinn var Snorri Sturluson og skipstjórinn var Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum, „góður vinur minn, ungur maður,“ segir Guðmundur.

„Hann hafði boðið mjer að koma með sjer eina nótt út á Svið og sjá, hvernig þeir toga þann gula upp úr sjónum, hann og Snorri.“

Guðmundur segist vita að Sviðið sé „geysistórt fiskimið í miðjum Flóanum; þar þekkja sjómennirnir okkar hvern blett, alt miðað við landsýn, og vita hvernig botninn er er á hverjum stað og hafa ótal örnefni.“

Fyrst var siglt út á Sandhala, sem svo var kallað, að toga „og hjer er kveikjulegt í kvöld,“ sagði skipstjórinn.

„Það kalla sjómenn kveikjulegt,“ segir Guðmundur, „ef mikið er af fugli, einkum svartfugli. Þar er síli og fiskvon. Vesalings sílið; fugl bítur að ofan, en fiskur neðan.“

Guðmundur segir ennfremur að hraun sé „í botninum út allan Flóa, að sunnanverðu við Sviðið. Togarar verða að varast hraunið, til þess að rífa ekki netin. Nú er oft mestur fiskur út við hraunbrúnirnar. Vandinn er að þekkja þær og þræða með þeim.“

Skipstjórinn vakir

Hann segir skipin toga þar og lýsingarnar gerast skáldlegar: „Sólin er sest; vindinn lægir; nú tekur að dimma í lofti, alt hljóðnar; það líður að lágnætti. En skipstjórinn vakir. Hann horfir til lands, sívakandi, síhugsandi, og heldur skipinu í einlægar bugður og króka. Hásetar taka hvíld, en hann vinnur. Hann er veiðimaðurinn. Undir honum er það komið, kunnugleik hans, árvekni og hyggindum, hvað vel gengur.“

Loks var togað, en veiðin var rýr: „Allmikið af sundurtættum þorskhausum og tveir hálfdauðir steinbítar í pokahorninu – það var öll veiðin eftir þriggja tíma tog. Henni var óðar mokað aftur í sjóinn.“

Skipstjórinn sagði þó að ekki væri öll nótt úti enn, og „hleypti Snorra á sprett góðan spöl vestur á bóginn og kastaði þar aftur.“

Draumfarir landlæknis

Guðmundur segist aldrei hafa heyrt að læknar væru „til bölvunar á sjó, eins og prestarnir, en nú fór mig að gruna margt.“

Hann ákvað því að leggja sig meðan næst væri togað: „Jeg ætla að vita, hvort mig dreymir ekki fyrir einhverju öðru en úldnum þorskhausum.“

Áður en hann lagði sig fór hann með sjómannsbæn og sofnaði síðan værum blundi.

„Mig dreymdi að allir þorskhausarnir væru orðnir að stórum og fallegum skipum, krökt af þeim á Flóanum, og öll með íslenska veifu við efsta hún. Margt dreymdi mig fleira, sem jeg segi engum frá.“

Loks hrökk hann upp við vinduhljóð þegar dregið var og sá að netpokinn var í það sinn „fullur af gulhvítum stórþorskum. Nú var komin afturelding og aftur líf. Ritur og mávar komu í loftinu úr öllum áttum og 3 togarar sinn úr hverri áttinni á sjónum, til að bera sig eftir björginni.“

Stórþorskur í stíunum

Nú fengu hásetarnir nóg að vinna: „Þarna lá hátt á annað þúsund af stórþorski í stíunum á þilfarinu, sumir dauðir, flestir í fjörbrotunum. Sumir hásetarnir fóru til og skáru á kverkina á hverjum fisk, til þess að úr þeim rynni blóðið. Aðrir tóku við og skáru af hausana og fleygðu í sjóinn. Allir hömuðust. Enginn mælti orð frá munni. Svo voru borð reist og farið að gera að, þvo fiskinn og fleygja honum niður í lestina, til tveggja háseta sem tóku við og söltuðu.“

Hann segir að sér hafi orðið starsýnt á vinnubrögðin: „jeg gáði á klukkuna og sá einn mann fletja 3 stórþorska á hverri mínútu. Öllu innvolsi var fleygt í sjóinn, nema lifrinni. Hana fá skipverjar í kaupbæti.“

Eftir stutta stund hafi allur fiskurinn verið kominn í salt, „1600 af vænsta þorski. Í næsta togi kom 100 í viðbót.“

Skipstjórinn sagði honum að mest hafi Snorri fengið 5000 í einu togi. Það væru fjórir pokar, en 5000 í einum drætti muni vera einsdæmi meðal togara.

Þjóðinni til stórsóma

Guðmundur landlæknir leggst síðan í vangaveltur um íslenska þjóð og líkir henni við unga menn til forna sem hann segir suma hafa verið efnilega í bernsku, „en lögðust svo í öskustó og höfðust ekkert að fram undir fullorðins aldur, og þóttu til einskis nýtir; en svo fór oft um síðir, að þeir risu úr öskustónni og urðu afbragð annarra manna.“

Þannig hafi íslenska þjóðin verið efnileg í bernsku, en síðan legið í öskustó: „Nú er hún farin að rísa aftur og hrista af sér larfana.“ Hún geti orðið „afbragð annarra þjóða. Það er mín trú, að þetta muni rætast.“

Hann gerist síðan skáldlegur á ný, lýsir fjallasýn frá Sviði og siglingunni til hafnar, en lýkur máli sínu á því að segja: „Togararnir okkar“, og þarna á hann væntanlega við sjómennina þegar hann segir togararnir, „eru að verða þjóðinni til stórsóma með dugnaði sínum. Ef þið trúið mér ekki, þá farið og gistið hjá þeim eina sumarnótt úti á Sviði.“

Nýyrði um togara

Það var Guðmundur Björnsson landlæknir sem árið 1910 stakk fyrstur manna upp á því að Íslendingar noti orðið „togari“ yfir hina nýju gerð fiskiskipa sem þá var komin til sögunnar. Íslendingar voru farnir að tala um „trolara“ en einnig hafði um nokkurt skeið verið talað um botnvörpunga og botnvörpuskip.

„Orðið er komið úr ensku,“ segir Guðmundur um „trolara“, en enska orðið „trawl“ sé þangað komið úr frönsku „og hafði áður ekki aðra merkingu en þá sömu og íslenska orðið lóð (fiskilóð).“ Englendingar hafi breytt merkingunni þegar farið var að „veiða með pokanetum, þau dregin eftir sjávarbotninum“, og farið að nota orðið einnig yfir slík net og veiðar með þeim.

Guðmundur segir að enska orðið hafi reyndar verið notað bæði um skipin og sjómennina sem toga. Hann fylgir því fordæmi og hikar ekki við að kalla sjómennina líka togara.

„Orðin botnvörpuskip og botnvörpungur hafa ekki náð fótfestu í mæltu máli; þau eru of löng,“ skrifar Guðmundur. „En sjómenn hafa sjálfir fundið orð, sem vel á við: þeir segja að toga (=to trawl)“ og nefnir dæmi: „þarna er einn að toga“ og „við togum venjulega tvo eða þrjá tíma í senn“, segi þeir.

„Orðið er ágætt, merkingin söm og í enska orðinu trawl“, og því ættum við „að segja togari, en ekki trolari, toga í stað trola, og tog eða tognet“.

Tilgerðarlegt nýyrði

Þetta nýyrði, sem nokkuð hratt varð rótfast í málinu, hlaut þó ekki einróma lof til að byrja með. Guðmundur birti hugleiðingar sínar í Eimreiðinni 22. júní árið 1910, og er það í fyrsta sinn sem orðið kemur fyrir á timarit.is í þessari merkingu. Nokkrum vikum síðar var orðið notað í grein í Fjallkonununni, en einn lesenda Fjallkonunnar sendi blaðinu kvörtun sem birt var strax viku síðar, þann 2. ágúst.

„Skil ég ekki hvað blaðinu gengur til þess að fara að smíða svo ljótan nýgerving alveg að þarflausu,“ segir í kvörtunarbréfinu sem birt var í Fjallkonunni 2. ágúst 1910.

Hann segir að botnvarpa, botnvörpuskip og botnvörpungur séu „ágæt og ótvíræð nöfn, sem náð hafa fullri festu í málinu fyrir löngu. Frekar ætti að nota þetta nýyrði um dráttarskip. „Orðið væri sæmilegt í þeirri merking. Ennfremur dettur mér í hug, að það væri tilvalið heiti á embættismanni, sem mikið buslaði á yfirborðinu og vasaði i mörgu einungis í því skyni að pota sjálfum sér til hærri laun og meiri metorða. Á dönsku heitir slíkur maður „Stræber“. – Mætti hann ekki heita „togari“ á íslenzku?“

Ritstjóri blaðsins tekur undir þessa kvörtun og segir orð þetta vera „fordildarlegt, óþarft og villandi“, en tekur fram að Fjallkonan hafi ekki fundið upp þetta nýirði heldur Guðmundur Björnsson landlæknir. Það hafi slæðst með í aðsendri fréttagrein „og er síður en svo, að blaðið vilji mæla með því.“

Tungan á iði

Guðmundur var áhugamaður um nýyrði almennt í íslenskri tungu, eins og lesa má um í grein sem hann skrifaði og birtist í Eimreiðinni árið 1911.

„Íslenzk tunga er illa stödd. Henni er misþyrmt í ræðu og riti,“ skrifaði hann þar. „Kríur eru friðaðar og spóar og önnur leiðinleg kvikindi, en vesælt móðurmálið á engan griðastað; öllum er frjálst að særa það og murka úr því lífið“.

Hann segir það fásinnu að „spyrna í móti nýjum orðum. Hver framfaraþjóð er til neydd að taka sér mörg ný orð í munn“, enda sé það „segin saga um hverja þjóð, að kunnátta hennar og fróðleikur er á sífeldu iði, og þá líka tungumál hennar.“

Landlæknir, ljóðskáld og þingmaður

Guðmundur Björnsson var fæddur 1864 í Víðidal og lést 1937. Hann var landlæknir á árunum 1906 til 1931 og þingmaður frá 1905 til 1922. Hann skrifaði margar greinar og bæklinga um lækningar og heilbrigðismál og ýmis önnur áhugamál sín.

Einnig gaf hann út ljóðabókina Undir ljúfum lögum þar sem hann notaði höfundarnafnið Gestur. Sum kvæðin þar urðu vel þekkt og jafnvel sungin við lög eftir Sigvalda Kaldalóns og fleiri, þar á meðal Sveinkadans og Kata litla í koti.