þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Súrnun og hlýnun útrými þorskinum

Guðjón Guðmundsson
11. febrúar 2019 kl. 19:00

Þorskstofninn í Barentshafi er stór - en það gæti breyst verði óheillaþróun ekki snúið við. Mynd/Havbruksinstitut

Stefnir í sex gráður á Celsius á hrygningarsvæðum í Barentshafi

Ógnin sem vofir yfir þorskstofnum af völdum hlýnun og súrnun sjávar í Norður-íshafinu er umtalsvert meiri en áður var talið, að því er kemur fram í nýrri rannsókn sem breska stórblaðið The Guardian segir frá.

Líklegt er talið að Norður-Atlantshafsþorskstofninn í Barentshafi fari stækkandi í fyrstu áður en hann hrynur, hugsanlega niður í ekki neitt, fyrir lok þessarar aldar, verði ekki gripið til róttækra aðgerða í loftslagsmálum. Frá þessu segir í rannsóknarniðurstöðum sem birtar eru á vef Arctic Monitoring and Assessment Programme, alþjóðastofnunar sem sett var á laggirnar árið 1991 til þess að vakta ástand sjávar í Norðuríshafinu.

75% hærri dánartíðni

Þetta er umfangsmesta rannsókn til þess sem hefur verið gerð um áhrif loftslagsbreytinga á lífsskilyrði þorsks. Í henni er í fyrsta sinn einnig tekið tillit til súrnunar sjávar jafnt sem hlýnunar.

Niðurstöðurnar sýna að dánartíðni þorsklirfa er 75% hærri við báða áhrifaþættina en hún er eingöngu vegna hlýnunar. Þetta mun leiða til fækkunar fiska, minni veiða og stofninn muni minnka hraðar en áður var talið.

Barentshafið er mikilvæg matarkista fyrir Norður-Evrópu. Megnið af þorskinnflutningi til Bretlands kemur til að mynda úr Barentshafi og af Íslandsmiðum. Vegna hlýnunar sjávar leitar þorskur í auknum mæli inn á þessi hafsvæði.

Um leið er súrnun sjávar hvergi meiri en einmitt á þessum hafsvæðum og ástæðan er sú að kaldur sjór dregur í sig meira magn koltvísýrings sem breytir pH stigi sjávar í átt til súrnunar. Ennfremur er hlýnun sjávar hraðari á þessum hafsvæðum en annars staðar. Frá upphafi iðnbyltingar hafi meðaltalshlýnun í heimshöfunum verið 1,1° C. Á hrygningarsvæðum þorsks í Barentshafi er hlýnunin 3,5° C yfir sama tíma. Verði ekkert að gert sé líklegt að þorskstofninn stækki verulega en hrynji síðan niður.

Hætta af súrefnisþurrð

Allt að 4,5° C hlýnun veldur því að þorskstofnar stækka. Við enn meiri hlýnun eykst dánartíðni þorsklirfa mjög hratt. Við 6° hlýnun í Barentshafi, þegar heimsmeðaltalið er 3°, verða þær horfnar.

Jafnvel þótt þjóðir heims virtu skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu, sem þær gera ekki núna, stefnir í að heimsmeðaltalið í hlýnun sjávar nái 3°C sem myndi þýða að vel yfir 6° C í Barentshafinu.

Jafnvel þótt þessar niðurstöður séu ógnvekjandi taka þær ekki til þeirrar hættu sem stafar af súrefnisþurrð sem eru enn önnur hliðaráhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum.

„Við erum að reyna að benda á alvarleika málsins sem er stórkostlegur,“ segir Martina Stiasny, einn af höfundum skýrslunnar. „Þorskur er einn mikilvægasti fiskstofn heims. Þessi þróun getur haft áhrif á fæðuöryggi.“

Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs, segir skýrsluna skýra ábendingu um þörfina á því að draga með róttækum hætti úr útblæstri.

„Fyrsta verkefnið er að stöðva þessa þróun. Þetta er enn ein fréttin um nauðsyn róttækra aðgerða. Við verðum að bregðast við svo halda megi heimsmeðaltalinu í 1,5°. Við þurfum bregðast mjög fljótt við.“