þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svaladrykkur með kollageni

22. maí 2019 kl. 15:00

Stofnendur Feel Iceland, þær Kristín Ýr Pétursdóttir og Hrönn Margrét Magnúsdóttir. MYND/AÐSEND

Þorskroð er til margra hluta nýtanlegt

Feel Iceland er eitt þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem nýtir sér aukaafurðir til að auka verðmæti sjávarfangs.

Fyrir nokkrum vikum setti fyrirtækið á markað svaladrykk sem heitir Collab, og er framleiddur í samstarfi við Ölgerðina.

Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Feel Iceland, kynnti þessa vöru á ráðstefnunni Fish Waste for Profit, sem haldin var í apríl síðastliðnum. Fiskifréttir hafa fjallað nokkuð um ýmislegt sem fram kom á ráðstefnunni.

„Til að byrja með vildu samstarfsaðilarnir fela þá staðreynd að kollagenið kemur úr fiski, því þeir óttuðust að fólki þætti það ógeðfellt að drekka eitthvað sem fengið er úr fiski,“ sagði Hrönn. „En svo þegar við héldum áfram í gegnum þróunarferlið urðu þeir jákvæðari og þegar við settum vöruna á markað var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á að kollagenið væri fengið úr fiski.“

Feel Iceland hefur áður sett á markað ýmsar vörur unnar úr þorskroði og öðrum aukaafurðum úr þorski, svo sem kollagenpúður og hylki sem bæta ástand húðar og liða.

„Við höfum sýnt fram á að fiskúrgangur getur orðið að verðmætri og áhrifaríkri vöru,“ sagði Hrönn.

„En það sem skiptir mestu fyrir okkur eru þær sögur sem við fáum frá viðskiptavinum okkar og þegar við heyrum að vörur okkar hafi breytt lífsgæðum þeirra.“

Svaladrykkurinn Collab er kominn á markað í tveimur útfærslum, annars vegar með límónu- og ylliblómabragði en hins vegar með mangó- og ferskjubragði. Drykkurinn er sykurlaus með koffeini ásamt kollageninu sem gefur af sér mikilvægar amínósýrur.