fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svartkjafturinn seldist á túkall

13. september 2016 kl. 09:29

Kolmunni

Fjórða uppboðið á kolmunnakvóta í Færeyjum í gær.

Færeyska landsstjórnin heldur áfram að bjóða upp veiðiheimildir í kolmunna, eða svartkjafti eins og Færeyingar kalla fiskinn. Á uppboði í gær keyptu fimm skip samtals 5.000 tonna kvóta fyrir 12,5 danska aura kílóið eða jafnvirði 2,06 íslenskra króna. 

Skipin eru gamlir kunningjar Íslendinga á miðunum hér við land, Christian í Grótinum, Fagraberg, Finnur Fríði, Næraberg og Tróndur í Götu. Lágmarksverð stjórnvalda var 12 aurar danskir á kílóið en niðurstaðan á uppboðinu var 12,5 aurar sem allir greiddu. Færeyski landskassinn fékk því 623.000 DKK fyrir söluna eða jafnvirði tæpra 11 milljóna ISK. 

Þetta er fjórða uppboðið á kolmunnakvóta í Færeyjum en á fyrstu tveimur uppboðunum komu engin tilboð því lágmarksverðið þótti alltof hátt eða 30 danskir aurar. Næsta fimmtudag verður enn eitt uppboðið og í næstu viku verða óseldu tonnin frá því í síðustu viku seld. Alls verða boðin upp 20.000 tonn af kolmunnakvóta.