mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sveiflukenndir ýsustofnar

7. janúar 2014 kl. 11:01

Ýsa

Erindi um ýsustofna í Norður-Atlantshafi í málstofu Hafró.

Höskuldur Björnsson flytur erindi sem nefnist Ýsustofnar í Norður Atlantshafi í málstofu Hafrannsóknastofnunar næstkomandi fimmtudag, 9. janúar. Miklar sveiflur í nýliðun eru einkennandi fyrir ýsu og í fyrirlestrinum verður þróun afla, nýliðunar, stofnstærðar og veiðihlutfalls hjá 9 ýsustofnum í Norður Atlantshafi borin saman.

Ýsuafli við Ísland hefur verið nokkuð breytilegur á undanförnum áratugum eða á bilinu 40-120 þús tonn. Það sem veldur þessu er breytileiki í nýliðun, en stærstu 20% af ýsuárgöngum skila helmingi af heildarfjölda fiska meðan sambærileg tala hjá þorski er 30%. Stærstu 20% af ýsuárgöngum eru að meðaltali 10 sinnum stærri en minnstu 20 prósentin meðan sambærileg tala fyrir þorsk er 2,6. Af þessu leiðir að mikill samdráttur verður í afla ef margir lélegir ýsuárgangar koma í röð eins og hefur verið að gerast hér síðan 2008. 

Erindið verður flutt kl. 12:30 í fundarsal á fyrstu hæð í húsakynnum Hafró að Skúlagötu 4 og eru allir velkomnir.