mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sveitafélög mótmæla fiskveiðifrumvarpi

31. ágúst 2011 kl. 15:44

Grundarfjörður er eitt þeirra sveitarfélaga sem andmæla fiskveiðifrumvarpinu. (Mynd: Mats Wibe Lund)

Óttast neikvæð áhrif á atvinnulíf, tekjur og samfélög þessara staða.

„Eins og fram hefur komið og færð eru rök fyrir í þessu erindi mun frumvarpið í þeirri mynd sem það liggur fyrir hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnulífið á svæðinu, tekjur sveitarfélagsins og samfélagið í Fjarðabyggð."

Svo segir m.a. í umsögn bæjarráðs Fjarðabyggðar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, sem sent hefur verið sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.

Umsögn Fjarðabyggðar er lýsandi fyrir þann tón sem einkennir umsagnir fleiri sveitarfélaga um frumvarpið. Þannig segir í umsögn frá Grundarfjarðarbæ: „Verði frumvarpið að lögum mun það auka enn óvissu í greininni og stórskaða rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja og búsetuskilyrði í Grundarfirði."

Í umsögn Seyðisfjarðarkaupstaðar segir m.a. : „Lagt er til að frumvarpið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar eða að öðrum kosti dregið til baka."

Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur einnig áherslu á að ekki verði gerðar neinar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða „er orðið geti til að veikja stöðu byggðarlagsins."

Í umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar segir m.a.: „Að óbreyttum frumvörpum verður ekki annað séð en að Sveitarfélagið Hornafjörður verði fyrir einhverju mesta áfalli, hvað varðar atvinnulíf staðarins, fyrr og síðar."

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.