miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svíar vildu einkaleyfi til ostruræktar

Guðsteinn Bjarnason
6. ágúst 2018 kl. 07:00

Frásögn Vísis í mars 1939 um ostruræktarlög Alþingis.

Alþingi setti árið 1939 lög um ostrurækt eftir að erindi barst frá Svíþjóð. Ekkert varð úr slíkum áformum þá, en nú eru íslenskar ostrur að koma á markað í fyrsta sinn.

Árið 1936 barst atvinnumálaráðuneytinu erindi frá sænsku fyrirtæki sem óskaði eftir leyfi til þess að hefja ostrurækt við Faxaflóa. Tveimur árum síðar var flutt frumvarp á þingi um málið, og árið 1939 samþykkti Alþingi lög um ostrurækt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Ostruveiðar og ostrurækt er stórkostleg atvinnugrein víða um heim. Á heimsmarkaðinum eru ostrur verðmestar af öllum skelfiski, enda mjög dýrar.“

Sigurður E. Hlíðar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir frumvarpi um málið þegar það var fyrst lagt fram í byrjun apríl árið 1938. Þar sagði hann meðal annars: „Þetta félag, Stigfjordens Ostronodlingar, bar það sérstaklega fyrir sig, að ostrurækt væri nauðsynleg, þar sem ostrustofninn sé genginn svo til þurrðar, að það, sem framleitt sé af þessari vöru án sérstakrar ræktunar, sé ekki nægilegt til að svara eftirspurninni eftir þessari vöru.“

Niðurstaða Árna Friðrikssonar
Eftir að erindi Svíanna barst lagði Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra málið fyrir fiskimálanefnd, sem hafði samband við Árna Friðriksson fiskifræðing og bað hann að rannsaka möguleika til ostruræktar hér við land.

„Árni Friðriksson komst að þeirri niðurstöðu, að sennilega væri hægt að rækta ostrur hér við land á svæðinu frá Akranesi og hingað til Reykjavíkur,“ segir í ræðu Sigurðar á þingi. „Hann teiknaði kort af þessum fjörðum og vogum og víkum í sambandi við þessa athugun, sem hann áleit heppilegustu staði á þessu svæði til slíkra tilrauna um ostrurækt.“

Sænska fyrirtækið, Stigfjordens Ostronodlingar, óskaði eftir einkaleyfi til 15 ára en niðurstaðan varð sú að atvinnuráðherra skyldi taka ákvarðanir um leyfisveitingar og til hve margra ára leyfi skyldu veitt, „en þar sem stofnkostnaður við ostruræktina er töluvert mikill og ostrulirfan þarf 4 til 5 ár til þess að ná hæfilegri stærð til matar, verður að ákveða leyfistímann með tilliti til þessa,“ segir í greinargerðinni með frumvarpinu.

Áhyggjur af friðun svæða
Í umræðum á þingi komu fram nokkrar áhyggjur af því að friðun svæða við Hvalfjörð og Kollafjörð vegna ostruræktar yrði til þess að allar aðrar veiðar á þeim svæðum yrðu bannaðar.

„Ef það væri meiningin að framkvæma þessar tilraunir með ostrurækt í Hvalfirði og banna þar alla aðra veiði, nær það auðvitað ekki nokkurri átt að leyfa slíkt. Og sama máli gegnir um Kollafjörð,“ sagði Pétur Ottesen í þingræðu í mars árið 1939, þegar frumvarpið hafði verið lagt fram öðru sinni.

„Ég hefi talað við Árna Friðríksson fiskifræðing um þetta mál. Hefir hann látið þá skoðun í ljós, að hann væri í vafa um, hvort hitastig sjávarins væri nægilegt til þess að hægt væri að rækta hér ostrur, og fer þá heldur fátt að mæla með því að leggja út í slíka óvissu og eyðileggja alla aðra veiði á þessum stöðum,“ sagði Pétur ennfremur.

Frumarpið varð engu að síður að lögum í lok mars árið 1939, hálfu ári áður en seinni heimsstyrjöldin hófst. Sá hildarleikur hefur væntanlega átt sinn þátt í því að ekkert varð úr áformum um ostrurækt hér við land í það skiptið.

Lögin hafa engu að síður verið í gildi allar götur síðan og það urðu Húsvíkingar sem tóku upp þráðinn fyrir nokkrum árum. Ostrueldi Víkurskeljar á Húsavík er nú að skila þeim árangri að fyrsta uppskeran er á leiðinni á markað á allra næstu vikum, eins og fjallað var um í Fiskifréttum 26. júlí síðastliðinn.