laugardagur, 6. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svíður meðferðin á smábátaútgerðinni

Guðsteinn Bjarnason
22. desember 2020 kl. 09:00

Arthur Bogason var kosinn formaður Landssambands smábátaeigenda (LS) með 73% atkvæða síðastliðinn föstudag. Aðsend mynd

Arthur Bogason tekur á ný við formennsku LS.

Nýr formaður Landssambands smábátaeigenda segist alla tíð hafa viljað að smábátaveiðar séu í sem frjálsustu umhverfi. Áhuginn á baráttunni hafi aldrei yfirgefið sig.

„Fyrst og fremst að ég get ekki losnað við áhugann á þessum málefnum,“ sagði Arthur Bogason, nýkjörinn formaður Landssambands smábátaeigenda, þegar hann var spurður um ástæðu þess að hann hafi ákveðið að taka slaginn aftur.

Hann var formaður sambandsins frá stofnun árið 1985 til ársins 2013, en bauð sig fram á ný til formennsku eftir sjö ára hlé.

„Þessi áhugi vill ekki yfirgefa mig. Þegar ég hætti hélt ég nú að ég myndi nú fá eitthvað nýtt áhugamál. Ég átti svo sem önnur áhugamál sem hafa heldur ekki yfirgefið mig, en mig langar bara að leggja þessari baráttu lið. Mér svíður alltaf hvernig smábátaútgerðin er meðhöndluð og vil leggja mitt af mörkum að laga það með öllum ráðum.“

Spurður um áherslur til að byrja með sagðist hann ætla „aðeins að fá að lesa yfir sviðið áður en ég fer að gefa út einhverjar sverar yfirlýsingar,“ enda var fyrsti vinnudagurinn rétt runninn upp þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn.

„En það hefur nú varla farið framhjá neinum sem hefur eitthvað fylgst með því hvað ég hef sagt og gert í gegnum tíðina að ég vil einfaldlega að smábátaveiðar séu í sem frjálsustu umhverfi og sem minnst heft af alls konar reglum og lögum sem að mínu viti er bara lítið og oft ekkert vit í.“

Ólga innan félagsins

Töluverð ólga hefur verið innan Landssambands smábátaeigenda undanfarið og jafnvel klofningur legið í loftinu, ekki síst vegna áforma stjórnvalda um að koma grásleppuveiðum í kvóta. Landssambandið samþykkti á aðalfundi sínum að lýsa yfir andstöðu við þau áform. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem stunda grásleppuveiðar hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við þessi áform um kvótasetningu, en þeir eru hins vegar í minnihluta innan félagsins.

„Alveg frá stofnun félagsins hefur alltaf verið ólga á meðal trillukarla. Það er bara eðli trillukarla að vera í einhverjum svona hasar. Þessi hasar var meira að segja byrjaður áður en Landssambandið var stofnað, þannig að ég get nú ekki sagt að það komi sérstaklega á óvart. En mér finnst hins vegar bara sorglegt þegar smábátaeigendur standa ekki saman, því það er það sem hefur fært þeim árangur. En stundum er umhverfið bara þannig að menn telja sér betur vært annars staðar. Ég breyti ekki gangi himintunglanna frekar en nokkur annar maður, en mun gera mitt besta til að halda félaginu saman.“

Hann segir smábátasjómennsku í sjálfu sér ekki hafa breyst mikið í gegnum tíðina.

„Nú er náttúrlega bættur tækjabúnaður og meiri þekking á ýmsum hlutum sem er bara til hins betra, þannig að smábátaútgerðin á að eiga alla framtíð bjarta ef hún hlýtur rétta meðhöndlun löggjafans og yfirvalda.“