sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svil úr síld handa vannærðum börnum í Afríku

1. júlí 2009 kl. 15:00

Við Haukaland sjúkrahúsið í Björgvin í Noregi er verið að kanna næringargildi mjöls sem inniheldur svil úr síld. Það er fyrirtækið Nofima sem hefur þróað þessa nýju vöru.

Vonir eru bundnar við það að í framtíðinni geti síldarsvilin stuðlað að betri heilsu hjá vannærðum börnum í Afríku, að því er segir í Fiskeribladet/Fiskaren. Sviljunum er blandað saman við maísmjöl. Einungis þarf að hella heitu vatni út í til að fá fyrirtaks graut fyrir börnin. Í mörgum þróunarlöndum er maísgrautur vinsæll barnamatur. Hann dugir þó ekki til að mæta daglegri næringarþörf. Með því að nota svilin úr síldinni til íblöndunar er bætt úr þeim vanköntum. Auk Omega 3 fitusýru eru svilin rík af vítamínum, prótínum og náttúrulegum andoxunarefnum. Framleiðslan verður fyrst reynd í Ghana og eru margar hjálparstofnanir í startholunum að deila þessum endurbætta maísgraut til mæðra sem eiga vannærð börn.