laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svipað af síld í Kolgrafafirði og áður

14. janúar 2014 kl. 11:12

Síldveiðar í Kolgrafafirði (Mynd: Alfons Finnsson).

Enn hafa 140.000 tonn af síldarstofninum ekki fundist.

Hafrannsóknastofnun hefur mælt á ný síldina sem heldur sig í Kolgrafafirði og varð niðurstaðan um 60.000 tonn. Það er svipað og mældist á þessum slóðum fyrir jól en þá var talið að 70.000 tonn væru í firðinum. Núna var nánast öll síldin í innri hluta Kolgrafafjarðar.

„Endanlegir reikningar verða ekki tilbúnir fyrr en síðar en það er ljóst að ekkert hefur bæst við magn veiðistofns í Breiðafirðinum frá því að mælingar voru gerðar í haust og enn vantar því töluvert magn inn í bergmálsmælingar vetrarins miðað við mælingar síðasta árs eða um 140 þúsund tonn,“ segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar. 

Niðurstöður aldursgreininga sýna jafnframt að það eru árgangar frá 2007 og 2008 sem einkum vantar í Breiðafjörð í samanburði við mælinguna í fyrra. Þetta eru árgangar sem uxu upp fyrir sunnan land og hluti þeirra er þar enn samkvæmt bergmálsmælingum á Bjarna Sæmundssyni í haust. Hluti þessara árganga birtist nokkuð óvænt í Breiðafirði í fyrravetur og var hlutfall þeirra í afla og bergmálsmælingum töluvert, einkum 2008 árgangsins. Í vetur virðast þessir árgangar hinsvegar hafa vetursetu á nýjum og enn sem komið er óþekktum slóðum. Framhald síldarrannsókna og leita þessa vetrar verða ákveðnar á næstu dögum.

Í tengslum við mælingar í Kolgrafafirði var farið með neðansjávarmyndavél til að skoða hvort eitthvað væri af dauðri síld á botni fjarðarins innan við brú. Það reyndist ekki vera enda hefur súrefnismettun í firðinum verið góð það sem af er vetri.

Eins og sagt var frá hér á vef Fiskifrétta fyrir helgina leiddi athugun rannsóknaskipsins Drafnar í síðustu viku í ljós að eingöngu smásíld úr 2012 árganginum var í Hvammsfirði en ekkert af veiðistofninum eins og vænst hafði verið.