mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Svipuð útbreiðsla á makríl og í fyrra

14. september 2011 kl. 11:56

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson (Mynd: Einar Ásgeirsson).

Meira um makríl fyrir vestan en minna við Suðausturland

Bráðabirgðaniðurstöður úr makríleiðangri í sumar sýna að útbreiðsla makríls við landið var svipuð og árið 2010 nema hvað meira var um hann nú við Vesturland og sunnanverða Vestfirði og minna við Suðausturland, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun.

Þann 31. ágúst lauk 29 daga leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það markmið að kanna útbreiðslu og magn makríls í íslenskri lögsögu. Þetta er þáttur í sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda á ætissvæðum í Norðaustur-Atlantshafi og umhverfisaðstæðum þar. Teknar voru 110 togstöðvar, 149 sjórannsóknastöðvar og 100 átustöðvar í leiðangrinum. Alls var 1306 mögum safnað úr síld, makríl og kolmunna til fæðugreiningar, þar af 678 makrílmögum. Hjörtum úr 1638 íslenskum sumargotssíldum var safnað til greiningar á sýkingu sem hrjáð hefur þennan stofn og erfðasýni úr 400 makrílum voru tekin. Úrvinnsla úr gögnum leiðangursins er enn í gangi.
Bráðabirgðaniðurstöður íslenska hluta leiðangursins sýna að útbreiðsla makríls við landið var svipuð og árið 2010 eins og að framan greinir. Nokkuð varð vart við makríl á fyrsta ári, 18-22 cm að lengd, við Suðausturland.