miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SVN tók á móti 68.000 tonnum af síld og makríl

8. nóvember 2013 kl. 13:00

Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað (Guðlaugur Birgisson)

Hákon EA kom í fyrradag með síðasta farminn á vertíðinni.

Alls bárust 68.230 tonn af makríl og norsk-íslenskri síld til Neskaupstaðar á vertíðinni sem nú er lokið. Síðastliðinn miðvikudag kom Hákon EA til Neskaupstaðar með um 700 tonn af frystri norsk- íslenskri síld. Þetta var hans síðasta veiðiferð á makríl- og síldarvertíðinni og er vertíðinni þar með lokið en önnur skip sem hafa verið við veiðar á makríl og norsk-íslenskri síld og landað í Neskaupstað eru hætt þessum veiðum fyrir nokkru enda veiðiheimildir uppurnar.

Sá afli sem kom til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar á vertíðinni nam alls 31.720 tonnum, þar af var makríll 14.590 tonn og síld 17.130 tonn. Megnið af aflanum kom frá þremur veiðiskipum, Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Að auki lögðu þrír togarar upp lítilsháttar afla til vinnslu í verinu.  Aflinn skiptist á skipin sem hér segir:

                           Makríll               Síld

Börkur NK           5.212              6.912

Beitir NK              5.741              6.448

Bjarni Ól. AK       3.433               3.726

Togarar                  204                   43

Fyrir utan þann afla sem landað var til vinnslu í fiskiðjuverinu lönduðu fimm vinnsluskip frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á vertíðinni. Afli þeirra nam samtals  26.100 tonnum og skiptist þannig á milli skipa:

Vilhelm Þorsteinsson EA 9.200 tonn

Hákon EA 7.700 tonn

Kristina EA 7.900 tonn

Barði NK 800 tonn

Huginn VE 500 tonn

Fyrir utan hinar frystu afurðir lönduðu vinnsluskipin til mjöl- og lýsisvinnslu um 9.000 tonnum af afskurði og fiski sem flokkaðist frá við vinnsluna. Þá landaði Birtingur NK 1.467 tonnum af makríl til mjöl- og lýsisvinnslu en sá afli fékkst í grænlensku lögsögunni. 

Þá tók mjöl- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar í Helguvík á móti 7.313 tonnum af makríl sem veiddist í grænlensku lögsögunni. 

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.