föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Systurklasar fæðast utan landsteinanna

Svavar Hávarðsson
22. janúar 2019 kl. 11:00

Nú starfa þrír systurklasar Sjávarklasans í Bandaríkjunum. Þeir eru New England Ocean Cluster, New Bedford Ocean Cluster og sá nýjasti, Nortwest Pacific Cluster.

Innan Íslenska sjávarklasans eru um 100 virk fyrirtæki sjö árum frá stofnun.

Hús Sjávarklasans hýsir tæplega 75 fyrirtæki og um 100 fyrirtæki eru virk í samstarfi klasans aðeins sjö árum frá stofnun. Á annan tug fyrirtækja hafa verið sett á stofn beint í tengslum við starfsemina. Samstarf fyrirtækja og einstaklinga hefur eflt þróunar- og markaðsstarf.

Síðasta heila starfsár Sjávarklasans er metið það allra öflugasta í sögu klasans, segir í umfjöllun klasans um starfsemina frá árinu 2012. Árið 2018 einkenndist af áframhaldandi uppbyggingu utan Íslands, aukinni áherslu á ungt fólk og frumkvöðlastarf. Hús sjávarklasans hefur aldrei haft fleiri leigjendur. Í hópinn hafa nýlega bæst hópar sem eru að þróa þörunga úr hafinu, ensím úr þorski, rekjanleikakerfi fyrir sjávarafurðir, svo eitthvað sé nefnt.

Fiskur og varasalvi

„Netakúlur sem skálar, fiskikollagen sett í varasalva, súkkulaði og ís, endurnýttar pallettur sem húsgögn, afgangssegl sem innkaupapokar. Þetta eru vörur sem meðal annars voru þróaðar í frumkvöðlakeppni í framhaldsskólunum sem haldin er af Junior Achievement og Íslenski sjávarklasinn er aðili að,“ segir í umfjölluninni. Starfsmenn klasans hittu um 400 nemendur og liðsinntu mörgum þeirra í verkefnin. Þegar eru starfsmenn klasans byrjaðir að taka á móti framhaldsskólanemum sem taka þátt í keppninni árið 2019 og á næstu þremur mánuðum er reiknað með allt að 300 nemendum í þessum erindagjörðum, sem bætist við heimsóknir grunnskólanemenda sem hafa síðustu misserin verið fjölskipaðir á göngum Húss klasans að Grandagarði.

Þrír systurklasar

Sjávarklasinn hefur lagt áherslu á fullnýtingu afurða og forystu Íslands á því sviði, sem vakið hefur athygli erlendis. Fulltrúar klasans hafa heimsótt yfir 15 sjávarútvegsborgir eða -bæji í Bandaríkjunum á undanförnum árum.

Nú starfa þrír systurklasar Sjávarklasans í Bandaríkjunum. Þeir eru New England Ocean Cluster, New Bedford Ocean Cluster og sá nýjasti, Nortwest Pacific Cluster. Einn afrakstur samstarfsins við Nýja England eru tengingar sem lúta að fjárfestingum Íslendinga í sjávarútvegi á svæðinu. Mikill áhugi er fyrir uppbyggingu frekara samstarfs á milli fyrirtækja á New England svæðinu og fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans. Unnið verður að opnun Húss New England Ocean Cluster á árinu.

„Þá var klasanum boðið að halda erindi á World Ocean Forum í Suður-Kóreu og hittum við þar m.a. fulltrúa Korean Marine Institute sem hefur áhuga á því að setja á laggirnar klasa,“ segir einnig í umfjölluninni.

Merkilegur áfangi

Fyrsta „afurð“ klasans var Codland. Hugmyndin kom frá klasanum en útgerðirnar Vísir og Þorbjörn tóku vel í hana og vildu þróa hana áfram í samstarfi við klasann. Klasinn setti einnig á laggirnar Collagen ehf. sem síðar var selt inn í Codland. Eigendur Collagens eru HB Grandi, Samherji, Vísir og Þorbjörn. Nú er uppsetning verksmiðju Collagens á lokametrunum og stefnt er að því að hún verði tekin í notkun í vor. Stefnt er að því að vinna allt að 4.000 tonn af roði í verksmiðjunni og framleidd verði 350-400 tonn af kollageni.

Unnið var að uppsetningu mathallar á Granda - á jarðhæð Bakkaskemmu. Með forystu á þessu sviði vill Sjávarklasinn auka m.a. veg klasans í borgarmatarmenningu eins og kostur er og gefa matarfrumkvöðlum færi á að efla starfsemi sína. Gestir Granda Mathallar voru 170.000 fyrstu 4 mánuði rekstrartímans. Í raun má næstum segja að viðtökur hafi fram úr björtustu væntingum, jafnvel hinna bjartsýnu starfsmanna klasans.

Fish and Ships

Á árinu var kláraður undirbúningur fyrir heildstætt markaðs- og kynningarefni fyrir erlenda gesti í Húsi sjávarklasans með áherslu á kynningu á öllum tæknilausnum og þekkingu sem íslensk fyrirtæki bjóða fyrir skip og fiskvinnslu og afurðir sem tengjast fiski, allt frá hefðbundnum fiskflökum til lyfja. Verkefnið gengur undir nafninu Iceland Fish and Ships. Nafnið var valið vegna þess það er grípandi og opið og fangar þau svið sem ætlunin er að það nái yfir. Iceland Fish and Ships er auðvitað einnig vísun í rétt sem er alþjóðlega þekktur,“ segir klasafólk í endurliti sínu.

Efling nýsköpunar

Klasinn hefur unnið með nokkrum samstarfsfyrirtækjum og Akraneskaupstað að skoðun á möguleikum til samstarfs um veiðar og vinnslu á grjótkrabba. Haldinn var fundur með sjávarútvegsráðherra fyrr á árinu sem tók vel í hugmyndir klasans á þessu sviði.

Þá er umhverfisklasi innan Sjávarklasans að taka sín fyrstu spor. Verkefnið framundan er að finna hentug verkefni sem fyrirtæki innan klasans geta sameinast um á sviði umhverfismála.