mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Systurskipin fullkláruð í heimabyggð

svavar hávarðsson
11. apríl 2019 kl. 13:00

Samherji semur við Slippinn á Akureyri um vinnsludekk í Kaldbak EA 1 og Björgúlf EA 312.

Samningar hafa verið undirritaðir milli Samherja og Slippsins Akureyri um ný vinnsludekk í ísfisktogaranna Kaldbak EA og Björgúlf EA. Áætlað að Slippurinn klári uppsetningu á  vinnsludekkinu í Kaldbak síðla sumars og svo uppsetningu í Björgúlf snemma á næsta ári. Búnaður frá Slippnum er nú þegar fyrir á millidekki þriðja skips Samherja af systurskipunum þrem - Bjargar EA - sem hefur reynst vel.

„Vinnsludekkið í Björgu EA hefur komið vel út á þessu fyrsta ári og hefur aflameðferðin verið fyrsta flokks og ekki að ástæðulausu að fiskurinn úr Björgu er sá besti sem hefur verið í unninn í fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyrar. Þjónustan og eftirfylgni Slippsins með vinnsludekkinu í Björgu hefur verið til fyrirmyndar og lítið um vandamál frá því að skipið fór í sína fyrstu veiðiferð. Það lá því beinast við að semja aftur við Slippinn um hönnun, smíði og uppsetningu á Kaldbak EA 1 og Björgúlf EA 312,“ segir Hjörvar Kristjánsson, verkefnisstjóri nýsmíða hjá Samherja, spurður um tilurð samstarfsins. 

Nýta það besta úr Björgu

„Við hönnun á vinnsludekki í Kaldbak og Björgúlf þá nýttum við það góða úr Björgu sem snýr að aðgengi að þrifum, gönguleiðum og einnig aðgerðaraðstöðunni þar sem við erum að fækka handtökum, auka afköst og stuðla að betri aflameðferð,“ segir Ágúst Guðnason, yfirhönnuður Slippsins á Akureyri, um vinnslulínuna sem um ræðir.

Í Björgu eru kælisniglar frá norska fyrirtækinu Stranda sem Slippurinn er í samstarfi við. Stranda hefur selt þennan búnað frá árinu 1995, og er fyrirtækið með 80-90% markaðshlutdeild af kælisniglum í Noregi fyrir lax. Fyrirtækið hefur jafnframt selt kælisnigla fyrir bolfisk til Íslands, Kanada, Rússlands, Skotlands og Færeyja.

„Við viljum bjóða viðskiptavinum okkur upp á bestu og þekkustu lausnirnar hverju sinni. Það var því ákveðið í sameiningu með Samherja að kaupa snigla frá Stranda, við höfum unnið náið með þeim á síðustu árum og hefur það samstarf gengið mjög vel. Það verða því settir kælisniglar í Kaldbak og Björgúlf ásamt blóðgunarsniglum,“ segir Ágúst.

„Það er mikil ánægja með kælisniglanna frá Stranda, hitastigið á fisknum er í kringum -0,7°C þegar hann kemur úr sniglunum, það verður einnig góð viðbót að bæta við blóðgunarsniglum í bæði Kaldbak og Björgúlf,“ segir Hjörvar.

Ásamt sniglunum frá Stranda þá verða settar lyftur í öll skipin þar sem Slippurinn og norska fyrirtækið Holmek hanna sérstaka lausn; fiskurinn verður með öðrum orðum settur í kör á vinnsludekkinu og fer svo með lyftu niður í lest.

„Það bætir aðbúnað hjá áhöfninni og dregur úr slysahættu að kara fiskinn uppi á vinnsludekki og við erum mjög ánægðir með þá lausn sem Slippurinn bauð okkur í samstarfi með Holmek,“ segir Hjörvar.

„Við þekkjum Holmek vel og erum að vinna með þeim í öðrum verkefnum og því var ákveðið að sameina okkar lausn með lyftum frá þeim,“ segir Ágúst.

Einfalt og skilvirkt

„Það er oft verið að koma til okkar með mikið af nýjungum, sérstaklega varðandi búnað á vinnsludekkinu, en sá búnaður á ekki alltaf heima í skipum, bæði með tilliti til afkasta, þrifa og kostnaðar,“ segir Hjörvar þegar nánar er spurt um ákvörðunartöku um hvaða búnaður henti best í verkefni sem þessu.

„Slippurinn og Samherji lögðu áherslu á að hafa vinnsludekkin einföld og skilvirk, það skilar sér í betri og öruggari aflameðferð og minnkar áhættuna á miklu viðhaldi sem skiptir bæði okkur og Samherja miklu máli,“ segir Ágúst.