laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tæpar 12 krónur í veiðigjöld fyrir kíló af þorski

30. apríl 2014 kl. 09:00

Netaveiðar (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Sérstaka veiðigjaldið leggst þungt á uppsjávarfiskinn

Veiðigjöldin, almenna gjaldið og sérstaka gjaldið samanlagt, eru mjög misjöfn eftir fisktegundum, allt frá 1 krónu á kíló, sem er lágmark, upp í 42 krónur á kíló fyrir búrfisk, samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á veiðigjöldum. Í þessum útreikningum er miðað við fisk upp úr sjó.

Hæstu gjöldin fyrir hefðbundnar nytjategundir á hins vegar að greiða fyrir þykkvalúru, alls um 24 krónur á kíló. Þar á eftir koma skötuselur, grálúða og ýsa. Þorskur er í níunda sæti, með alls tæpar 12 krónur á kíló og er hann á svipuðu róli og humar. Af uppsjávartegundum skal greiða hæstu gjöldin fyrir síld, alls tæpar 10 krónur á kíló.

Sérstaka gjaldið er reiknað út frá afkomu þar sem vinnslan vegur þungt. Í botnfisktegundum er sérstaka gjaldið yfirleitt um helmingi lægra en almenna gjaldið. Þannig á að greiða 8 krónur á kíló í almennt gjald fyrir þorsk en tæpar 4 krónur í sérstakt gjald. Þessu er öfugt farið með uppsjávarfiskinn, einkum makríl og síld. Þar er sérstaka gjaldið allt að tvöfallt hærra en almenna gjaldið og á það að endurspegla góða afkomu af vinnslu uppsjávartegunda. Almenna gjaldið á síld er 3,18 krónur á kíló en sérstaka gjaldið er hins vegar 6,58 krónur á kíló.

Sjá nánar samantekt um veiðigjöldin í nýjustu Fiskifréttum sem koma út í dag.