mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tap varð af rekstri Hafró í fyrra

2. maí 2014 kl. 16:19

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson (Mynd: Einar Ásgeirsson).

Meginástæðan var minni tekjur af seldum afla vegna lækkaðs fiskverðs.

Í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrir árið 2013 kemur fram að 83 milljóna króna tap hafi orðið af reksti stofnunarinnar á árinu eftir að tekið hafi verið tillit til ónýttrar fjárheimildar frá árinu á undan upp á 80 milljónir. Að slepptri þessari ónýttu heimild var tapið því 163 milljónir króna. 

Kostnaður við rekstur stofnunarinnar nam 2.813 milljónum króna. Fjárveitning ríkisins nam 1.384 milljónum, auk 35 milljóna aukafjárveitingar vegna kostnaðar við fund Aljóðahafrannsónaráðsins sem haldinn var hér á landi. Sértekjur námu 1.231 milljón króna. 

Í skýrslunni segir Jóhann Sigurjónsson forstjóri að skýringin á óhagstæðri rekstrarniðurstöðu felst fyrst og fremst í því að sértekjur hafi orðið mun minni en áætlað hafi verið, einkum vegna lækkaðs fiskverðs, en afli í rannsóknaleiðöngrum er seldur á markaði. Hlutdeild sértekna í heildarrekstri hafi aukist jafnt og þétt síðustu árin en fjárveitingar lækkað.