sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Taramar sækir á erlenda markaði

Guðjón Guðmundsson
21. apríl 2019 kl. 12:00

Guðrún Marteinsdóttir hefur unnið að þróun Taramar húðvara frá 2010. MYNDIR/AÐSENDAR

Húðvörur úr sérvöldum þara og lækningajurtum

Íslenska líftæknifyrirtækið Taramar, sem framleiðir húðkrem með lífvirkum efnum úr þara og lækningarjurtum, er að hefja markaðssókn með vörur sínar í Bandaríkjunum. Vörurnar byggjast á rannsóknum Kristbergs Kristbergssonar prófessors í matvælafræði og Guðrúnar Marteinsdóttur prófessors í líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ólíkt vörum keppinautanna innihalda þær engin eiginleg rotvarnarefni og einungis náttúruleg ilmefni.

Fyrirtækið var stofnað árið 2010 og fyrstu fimm árin stóð yfir vöruþróun og prófanir. Fyrsta vara Taramar kom á markað á Íslandi 2015.

„Á árinu 2012 fengum við fyrsta styrkinn og þá fórum við að flytja inn rannsóknaniðurstöður Kristbergs inn í húðvörurnar okkar. Rannsóknir Kristbergs á lífvirkum efnum höfðu þá staðið yfir í um 30 ár,“ segir Guðrún. Kristberg er eiginmaður hennar og einn af eigendum Taramar.

Rannsóknastofa Taramar er nýflutt úr Nýsköpunarmiðstöðinni í eigið húsnæði í Starmýri í Reykjavík og á síðasta ári var sett upp framleiðsluaðstaða fyrir erlendan markað með nýjum vélakosti í Sandgerði. Auk þess er fyrirtækið með vöruhús í Njarðvík.

Hrein vara

„Á síðasta ári höfum við verið að undirbúa markaðssetningu á húðvörunum erlendis sem mun eiga sér  stað í  sumar í Los Angeles, New York og London til að byrja með. Við stefnum að því að selja  10-20 þúsund vörur á mánuði. Við erum í samstarfi við dreifingaraðila í Kaliforníu og fer salan einkum fram á netinu,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að Taramar húðvörurnar séu í efsta gæðaflokki. Það megi sjá breytingar á húðinni eftir notkun húðvaranna í einungis eina viku.

„En stóri munurinn er sá að okkar vara er alveg hrein. Við höfum fjarlægt öll eitrandi og hormónaruglandi efni sem einkenna aðrar húðvörur sem eru á markaðnum. Við getum því farið í tvær áttir, þ.e.a.s. inn í heilsuverslanir en líka inn á sama markað og stórir framleiðendur eins og L‘Oreal og fleiri eru.“

Ákveðið var að makaðssetja vörur Taramara á netinu ekki síst vegna þeirra tækifæra sem þar eru til þess að kynna söguna að baki vörunni. Sala á snyrtivörum sé auk þess að færast mikið yfir í netsölu.

Uppgötvun Guðrúnar

Rotvarnarefnum er ekki bætt út í húðvörur Taramara en mörg þeirra geta haft slæm áhrif á húð og líakama þegar þau berast inn í húðina. Engu að síður er 12 mánaða geymsluþol á vörunum.

„Líftími lífvirku efnanna sem við einöngrum úr þörungum með okkar aðferð er um eitt ár en eftir þann tíma er virkni þeirra farin að þverra. Við viljum því að viðskiptavinir okkar noti ávallt nýjar vörur til að þess að fá sem mesta virkni. Þetta er hægt þegar salan fer fram á netinu.“

Aðferðin sem hér um ræðir og lengir líftíma lífvirku efnanna í vörum Taramar er uppgötvun Guðrúnar sem nú er verið að sækja um einkaleyfi fyrir. Þetta þýðir að innihaldsefnin í vörunum eru algjörlega hrein og meira að segja óhætt að leggja sér þau til munns. Með uppgötvun Guðrúnar hefur Taramar náð forskoti á keppinauta sína.

Guðrún vill ekki fjalla með ítarlegum hætti um uppgötvun sína að öðru leyti en því að um er að ræða eðlisefnafræðilegt skref í framleiðslunni.

Hörð samkeppni

Þarann til framleiðslunnar fær Taramar frá Símoni Sturlusyni sem rekur fyrirtækið Bláskel í Stykkishólmi. Þarinn er allur handtíndur, settur í kalt ferskvatnsbað og hann undirbúinn fyrir þurrkun af mikilli natni. Út á þetta og hreinleika sjávarins er gert í markaðssetningunni. Mest er notað af marinkjarna og maríusvuntu í framleiðsluna. Lækningajurtirnar koma frá Vallanesi í Fljótdalshéraði og Hæðarenda í Grímsnesi og eru þær ræktaðar á lífrænan hátt.

„Marinkjarninn inniheldur til dæmis efni sem dregur úr virkni ensíma sem brjóta niður kollagen í húð. Vörurnar okkar innihalda efni sem hjálpa til við að byggja upp húðina og það sést heilmikil breyting á húð um leið og byrjað er að nota vöruna,“ segir Guðrún.

Hún segir gríðarlega samkeppni á þessum markaði og það eitt að láta sína rödd heyrast sé ærið viðfangsefni. Það séu í raun neytendur sem þrýsti á að fram komi hreinar húðvörur en það hafi reynst framleiðendum þrautin þyngri sem hafa notað rotvarnarefni til að lengja geymsluþolið upp í allt að þrjú ár.

Náttúruleg ilmefni

„Við gefum einungis upp geymsluþol til eins árs og það er ekki vegna hættu á örveruvexti heldur er ástæðan sú að við notum einungis náttúruleg ilmefni í framleiðsluna og þau dofna fyrr en tilbúin ilmefni. Það sem við höfum rekist á í þessu ferli er að þessi bransi svífst í raun og veru einskis og lítið að marka þær upplýsingar sem gefnar eru um vörur flestra framleiðenda á heimasíðum þeirra eða pakkningum.“

Eitt af því sem veldur öldrun húðar eru sindurefni. Þau eru þeirrar gerðar að vera óstöðug. Ástæðan er að það vantar  elektrónur í ysta hjúp þeirra. Þau ráðast því á frumur í húðinni til þess að stela elektrónum.

„Þörungarnir innihalda andoxunarefni með auka elektrónum. Þegar húðkremið okkar er borið á húðina gerir það þessi sindurefni óvirk. Önnur lífvirkni þörunganna er efni í þeim sem kemur af stað efnaferlum í frumum sem dregur úr þrota og bólgum.“

Guðrún segir að húðvörur Taramar séu vissulega dýrar fyrir þá sem hafa ekki mikið umleikis. Stefnan sé engu að síður að halda áfram að þjónusta íslenska markaðinn með eins lítilli álagningu og unnt er  og borga þannig til baka fyrir afnot af íslensku þangi og þá staðreynd að fyrirtækið varð til á Íslandi. Guðrún bendir Íslenskum neytendum einnig á að hafa samband við fyrirtækið og fá upplýsingar um leiðir til að fá vörurnar á góðu verði (info@taramar.is, www.taramar.com, www.taramar.is ).