föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Telja að olíuslys hafi óafturkræf áhrif

Svavar Hávarðsson
27. nóvember 2019 kl. 07:00

Olíuborpallur við strendur Noregs.

Norska Hafrannsóknastofnunin um vinnslu á olíu og gasi við Noreg

Ný rannsókn norsku Hafrannsóknastofnunarinnar sýnir að alvarlegur olíuleki úti fyrir Lofoten, Vesterålen og Senja í Norður – Noregi muni koma hart niður á vistkerfunum á aðliggjandi hafsvæðum. Vinnsla á olíu og gasi nálægt helstu fiskimiðum Noregs hefur verið bitbein hagsmunaaðila og innan stjórnmálanna í Noregi um langt árabil.

Hópur vísindamanna við norsku Hafrannsóknastofnunina hefur unnið að rannsókn á áhrifum olíuslyss á þau hafsvæði sem eru hvað gjöfulust fyrir norska útgerðarmenn. Niðurstaða hópsins er í hnotskurn sú að meiriháttar, og óafturkræfar, breytingar munu verða á vistkerfi þessara hafsvæða verði þar stórt olíuslys. Reyndar eru niðurstöðurnar þær að neikvæðar breytingar á vistkerfinu verði meiri en hingað til hefur verið talið. Í því ljósi leggur stofnunin þunga áherslu á varðveislu vistkerfanna og þeim verði ekki hætt að óþörfu.

Varanlegur skaði

Vísindamennirnir unnu rannsóknina með því að byggja upp gagnabanka þar sem mögulegt var að herma áhrif olíuleka á vistkerfið. Var þar allt undir; þörungar, sjávarspendýr, stofnar fiska og fjölmargar náttúrulegar breytur.

Eitt af því sem var kannað var stóraukin afföll af lirfum og seiðum helstu stofna, eins og þorsks, ýsu og síldar. Svo virðist sem þorskstofninn á svæðinu myndi ná að jafna sig og ná fyrri stærð á fimm til tíu árum eftir olíuslys. Það á hins vegar ekki við um síðarnefndu stofnana tvo. Þar virðist jafnvel skaðinn geta varað um ófyrirsjáanlega langan tíma – eða vera varanlegur.

Verðmætin gríðarleg

Hafsvæðin tvö sem um ræðir eru þau verðmætustu þegar kemur að nýtingu sjávarauðlinda Noregs. Árlega er dreginn úr sjó fiskur að virði 100 milljarða norskra króna – eða um það bil 1.400 milljarðar íslenskra króna í útflutningsverðmætum talið. Engan skal því undra þó samtök norskra útgerðarmanna vari afdráttarlaust við vinnslu á olíu og gasi í næsta nágrenni við hin gjöfulu fiskimið sem um ræðir. Engu að síður hafa tilraunaboranir stutt úti fyrir helstu hrygningarstöðvum þorsks verið samþykktar og er verið að draga olíuborpallinn West Hercules á sinn stað. Bæði norska Hafrannsóknastofnunin og Umhverfisstofnun Noregs hafa varað sterklega við að borað sé á þessu svæði en stjórnvöld hafa ákveðið að ganga þvert á þá ráðgjöf, og liggur borleyfið hjá þýska olíufélaginu Wintershall DEA. Þar sem borað verður er afar stutt að stærsta kaldsjávarkóralrifi heims, hrygningarstöðva stærsta þorskstofnsins við Lofoten og eins stærsta búsvæðis sjófugla í Evrópu.

Orð gegn orði

Í umfjöllun NRK um málið er rætt við forsvarsmenn náttúruverndarsamtaka, þar á meðal Fredrik Myhre, sjávarlíffræðing, sem starfar innan samtakanna World Wildlife Fund (WWF). Hann deilir áhyggjum hagsmunaaðila og telur að ekki skuli leyfa olíu- og gasvinnslu við Lofoten, Vesterålen og Senja. Svæðin séu einstök og vernd þeirra skuli vera í samhengi við þá staðreynd.

Á móti halda hagsmunasamtök fyrirtækja í olíuvinnslu (Norsk olje & gass) því fram að nýtingu svæðanna fylgi hverfandi hætta. Hins vegar sé eðlilegt að auðlindirnar undir hafsbotninum séu nýttar eins og víða annars staðar í norskri lögsögu. Olíuiðnaðinum norska hafi verið settar svo strangar öryggis- og umhverfiskröfur að ekkert sambærilegt sé hægt að finna utan Noregs.