þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Það er vertíðarblær yfir þessu

Guðjón Guðmundsson
13. janúar 2022 kl. 09:00

Bergey á leiðinni til heimahafnar. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Bergey VE með 85 tonn af boldangsþorski í snörpum túr.

Jón Valgeirsson og áhöfn hans á Bergey VE gerðu góðan skottúr úti fyrir Suðurlandi í byrjun vikunnar. Í þéttum aflandsvindi af aust-norðaustri var haldið sem leið lá í einu striki frá Eyjum austur að Vík og Pétursey. Jón er ekki í fyrsta sinn á sjó. Hann þekkir sína heimahaga. Þarna var togað sex sinnum. Svo var haldið til baka með 230 kör í lestinni af boldangsþorski. Að minnsta kosti 85 tonn og slatti af hrognum.

„Ég segi allt prýðilegt. Hvar grófstu upp þetta númer?“ Ja, blaðamaðurinn fór nú bara inn á ja.is.

„Já, var það þannig, já. Jú, þetta var bara vænt, sjö til tólf kílógramma fiskur og nóg af honum virtist vera. Það var hávaðarok þegar við lögðum í hann, aust-norðaustan skætingur af landi og það var skjól af landinu. Við toguðum þarna úti fyrir Vík og Dyrhólaey. Þarna hafa verið teknir upp nokkrir fiskar í gegnum árin. Eitthvað er þetta í áttina að vertíðarbyrjun. Þarna hafa verið að fiska ágætlega undanfarin ár línubátar um þetta leyti árs. Fiskurinn skríður dálítið svona með landinu um þetta leyti árs en í svona aust-norð-austanátt á hann það til að færast utar aðeins. Við vorum þarna rétt yfir utan þrjár mílurnar. Þetta var rígaþorskur sem við vorum í. Sex kílóa fiskur og þaðan af stærri og allt upp í tólf kíló. Meðalvigtin var 8,5 kíló sem við töldum í,“ segir Jón.

Engin ýsa í þessu

Túrinn var ekki langur. Einn og hálfur sólarhringur. Alls voru þetta sex tog og fyllt var í 230 kör ofan í lest sem fyrr segir. Það vill segja um 85 tonn af hreinum þorski. Það má vissulega kalla mokstur á ekki lengri tíma. Fiskurinn var stór, auðveldara að eiga við hann og miklu minni vinna í aðgerð.

„Þetta er samt ekkert mjög sérstakt þarna. Það líður að vertíð. Við vorum líka með nokkur kör af hrognum. Það verður örugglega blússandi vertíð núna eins og undanfarin ár. Svo hafa togararnir verið í ágætum þorski á Flæmska hattinum. Það var víst þessi gönguþorskur, vertíðarþorskur sem kemur svo upp að Reykjanesinu og þar um slóðir. Svo kemur eitthvað líka að austan svo það stefnir í blússandi vertíð held ég.“

  • Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey. Mynd/Þorgeir Baldursson

Jón segir að sérfræðingarnir vilji meina að von sé á miklum loðnugöngum í suðurátt fyrir Austurlandi og í vestur með öllu Suðurlandi með tilheyrandi matarveislu fyrir þorskinn og mennina og lífríkið allt. En oft hafi nú lítið verið að marka sérfræðingana. Nú vilji þeir skera niður þorskkvótann. Þetta séu flókin vísindi enda hafið stórt. En alltof mikið mark sé tekið á sérfræðingum. Það sé ágætt að hafa þessa fræðigrein til hliðsjónar og þróa hana áfram en það eigi ekki að fara svona stíft eftir þessari visku. Það er mat Jóns.

„Það var engin ýsa í þessu. Hún kemur alltaf seinna. Við lönduðum á mánudagsmorgun en við förum ekkert út aftur í bráð. Hann verður með látum að suðvestan og þá gerir svo mikinn sjó. Það verður álandsvindur og fiskurinn heldur sig þá nær landi. Það verður ekki verandi þarna fyrir brælu,“ segir Jón.