fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Það var að hrökkva eða stökkva“

3. júní 2019 kl. 08:00

Bergur Einarsson, skipstjóri. Aðsend mynd

Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU, tekur við sem annar skipstjóra Venusar NS

„Ég stóð á ákveðnum tímamótum þegar mér bauðst þetta starf. Ég er að verða fimmtugur og það var nú eða aldrei, að hrökkva eða stökkva. Ég valdi að stökkva og skipta um starf. Þetta var ekki auðveld ákvörðun enda hefur mér liðið vel og ég kveð Loðnuvinnsluna og áhöfnina á Hoffelli SU með söknuði.“

Þetta segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli, í frétt HB Granda en hann tekur innan tíðar við skipstjórn á Venusi NS á móti Theódór Þórðarsyni. Bergur segir í fréttinni að honum hafi verið boðið starfið og það hafi ráðið úrslitum við ákvörðun hans að góðir menn séu í áhöfninni, HB Grandi sé sterkt fyrirtæki og kvótastaðan sé góð.

Bergur er borinn og barnfæddur Fáskrúðsfirðingur og hann segist ekki vera á leið frá Fáskrúðsfirði þótt hann skipti um starf. Líkt og fleiri í sjávarplássunum á Austfjörðum fór Bergur ungur til sjós.

„Ég flosnaði upp úr skóla og var ekki nema 15 ára gamall þegar ég fékk vinnu á Sólborgu SU. Hermann Steinsson var þá skipstjóri en ég var í áhöfn Sólborgar í eitt ár. Leiðin lá næst yfir á togarann Álftafell SU frá Stöðvarfirði. Svo var ég heimaskipunum Hoffelli SU, Ljósafelli SU og Búðafelli SU allt þar til að ég fór í stýrimannaskólann 1991. Ég var í skólanum á Dalvík og útskrifaðist 1993. Eftir skólann fór ég sem 2. stýrimaður á togarann Ljósafell, sem Albert Stefánsson og Ólafur Gunnarsson voru þá með. Ólafur tók við skipstjórninni 1994 og ég var með honum allt þar til að ég færði mig yfir á uppsjávarskipið Hoffell sem stýrimaður árið 1998. Helgi Kristjánsson var þá skipstjóri en hann hafði siglt skipinu heim frá Írlandi ári fyrr. Eftir að Helgi hætti árið 1999 tók ég við skipstjórninni og hef verið skipstjóri á Hoffelli allar götur síðan.“

Ítarlegt viðtal er við Berg í fréttinni sem er aðgengileg hér.