fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þakklætisvottur Þjóðverja

6. desember 2013 kl. 14:55

Jólatréð á Miðbakka Reykjavíkur (Mynd/HB Grandi: Kristján Maack)

Jólatréð á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn á sér langa sögu.

Um liðna helgi voru ljósin tendruð á jólatré á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn. Það er út af fyrir sig ekki í frásögur færandi nema vegna þess að jólatréð við höfnina á sér fallega og langa sögu. Sú saga tengist íslenskum togarasjómönnum sem sigldu með ferskan fisk til hafnarborga í Þýsklandi á fyrstu árunum eftir seinni heimsstyrjöldina, eins og rifjað er upp á vef HB Granda. 

Þar kemur fram að jólatréð við Reykjavíkurhöfn er gjöf Hamborgar í Þýskalandi til Íslendinga og er gjöfin tileinkuð þeim íslensku sjómönnum sem voru skipverjar á ísfisktogurunum sem sigldu til Þýskalands. Landið var í rústum eftir stríðið og íslenskir togarasjómenn glöddu marga á hafnarsvæðunum með því að gefa þeim vistir og fisk á meðan skipin höfðu viðkomu í höfn. Þjóðverjar hafa ekki gleymt þessu og árið 1965 ákváðu hafnaryfirvöld í Hamborg að færa Íslendingum jólatré að gjöf sem þakklætisvott fyrir þá góðvild sem sjómennirnir sýndu íbúum Hamborgar á erfiðum tímum. Hefur þessi siður haldist allar götur síðan og tréð, sem ljósin voru tendruð á um síðustu helgi, er hið 49. í röðinni.

Mikilvægur markaður

Minnti er á á vef HB Granda að löng hefð sé fyrir útflutningi á íslenskum fiski til Þýskalands. Framan af sigldu togarar með aflann en segja má að slíkar siglingar heyri sögunni til. Í dag er  fiskur fluttur utan með flugvélum og sjóleiðis með flutningaskipum. Fyrir HB Granda hefur Þýskalandsmarkaður ávallt verið mikilvægur markaður.

,,Það hefur verið vaxandi markaður fyrir afurðir okkar í Þýskalandi og þýski markaðurinn er eitt af okkar mikilvægari markaðssvæðum. Afurðirnar eru hvort tveggja frystur og ferskur fiskur og við vinnum daglega að því að uppfylla þarfir verslana, heildsala eða mötuneyta,“ segir Davíð Davíðsson, sölustjóri hjá HB Granda.

Helstu fisktegundirnar, sem fluttar eru út til Þýskalands, eru karfi og ufsi en einnig nokkuð af þorski. Afurðirnar dreifast víða og fara jöfnum höndum til smásala og heildsala.

,,Þýskaland er mjög meðvitaður og kröfuharður markaður. Kröfur um uppruna afurða og vottun um að fiskurinn sé veiddur úr sjálfbærum stofnum eru allaf að aukast. Markaðsstaða okkar mun því styrkjast enn frekar við IRF vottunina sem HB Grandi hefur fengið fyrir þorsk, ýsu og ufsa,“ segir Davíð Davíðsson.