fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þarf ekki að snerta færið

Guðsteinn Bjarnason
1. júní 2019 kl. 09:00

Tryggvi L. Skjaldarson á bát sínum, Togga Mara RE, með nýja handfærabúnaðinum. MYND/Tryggvi L. Skjaldarson

Tryggvi L. Skjaldarson þróar nýstárlegan búnað fyrir handfæraveiðar.

Tryggi segist sannfærður um að þeir sem eru „slæmir í baki eða búnir að stinga sig nógu oft á öngli“ geti innan tíðar hugsað sér að prófa nýja búnaðinn

Tryggvi L. Skjaldarson fékk í vor úthlutað styrk frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að vinna að endurbótum á vinnulagi við handfæraveiðar. Fiskifréttir slógu á þráðinn til að forvitnast um málið.

„Hugmyndin gengur út á það að þurfa ekki að vera með slóðann í höndunum,“ segir Tryggvi. Fyrir tveimur árum fékk hann hugljómun, sem hann kallar svo, þar sem hann var staddur í sumarbústað. Spurningin sem vaknaði var: „Hvernig væri að taka slóðann yfir bátinn?

Í staðinn fyrir að færið fari niður í sjó frá rúllunni, þá fari það upp og yfir bátinn og niður hinu megin.“

Hann fékk mann til að smíða búnaðinn fyrir sig, gálga sem nær upp yfir bátinn og setur færið niður hinu megin.

Teningunum var kastað

„Hann er alger listasmiður og heitir Þröstur Kjærnested Guðnason. Hann er yfirsmiðurinn minn og afar flinkur. Í vetur spurði hann mig hvort mér væri alvarara með að smíða þennan búnað og þegar ég játti því, sagðist hann geta smíðað þetta fyrir mig. Og teningunum var kastað“

Undanfarnar vikur hefur Tryggvi verið á sjó á bátnum sínum til að prófa búnaðinn og segir hann hafa staðið fyllilega undir væntingum.

„Sjávarútvegsráðuneytið gaf mér leyfi til að fara út í Faxaflóa og prófa búnaðinn þrátt fyrir að ég ætti engann kvóta, og kann ég þeim bestu þakkir fyrir skilninginn og skjót viðbrögð.“

Hann er með þrjár rúllur og þarf ekki annað en að ýta á takka á rúllunni til að slaka færinu út, og ýta aftur á takka til að draga slóðann inn.

„Ég horfi bara á, kem ekkert við þetta. Þegar sæmilega stór fiskur kemur á færið þá stoppar hann í yfirborðinu því rúllan er komin á hæga hífingu. Þegar ég gogga í fiskinn og lyfti honum upp þá fer rúllan aftur af stað, þannig að við hjálpumst í rauninni að við að lyfta fiskinum inn í bátinn, rúllan og ég. Ef það eru fleiri fiskar þá hef ég tekið restina með gamla laginu en mjög oft er bara einn fiskur á og þá gjarnan á neðsta öngli”.

Hann segir búnaðinn virka nákvæmlega eins og hann hugsaði sér, fyrir utan það að rafmagnsrúllan nær ekki að slíta fiskinn af krókunum.

„En ég er svo sem ekkert að sjá það sem stóra málið, bara það að þetta virkar er alveg yfirdrifið nóg.“

Margir reka upp stór augu

Tryggvi segir starfið allt verða mun þægilegra með nýja búnaðinum, en margir hafa óneitanlega rekið upp stór augu.

„Menn eiga bara eftir að kveikja á þessu. Ennþá er ég bara skrýtni karlinn. Það tók mig langan tíma að útskýra hvað ég er að meina af því það hefur lítil breyting orðið við handfæraveiðar í 40 ár. Menn eru bara að gera eins og afi minn þegar kemur að því að taka fiskinn inn í bátinn.“

Hann segist þó alveg sannfærður um að ekki líði á löngu áður en aðrir geti hugsað sér að prófa þessa útfærslu, ef þeir eru til dæmis „slæmir í baki eða búnir að stinga sig nógu oft á öngli. Þetta er í rauninni fáránlega einfalt.“

Tryggvi hefur verið á smábát í þrjú ár, en hefur komið víða við um æfina. Áður en hann fór á sjóinn starfaði hann í tuttugu ár í álverinu í Straumsvík og þar áður var hann kartöflubóndi í átján ár. Báturinn heitir Toggi Mara, nefndur í höfuðið á afa hans, Þorgrími Maríussyni, sem var trillukarl á Húsavík.

„Fyrir áeggjan lét ég kanna möguleika á einkaleyfi fyrir hugmyndina og virðist þessi hugmynd algerlega óþekkt og í framhaldi af því hef ég sett inn umsókn um einkaleyfi og spennandi tímar framundan.”