miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þegar komnir yfir 1000 íslenska milljarða

Guðjón Guðmundsson
26. október 2019 kl. 09:00

Í norskum sjávarútvegi ber laxeldið höfuð og herðar yfir allt annað. Mynd/BH

Mikil verðmætaaukning í útflutningi Norðmanna á sjávarafurðum

Norðmenn hafa flutt út 1,8 milljónir tonna af sjávarafurðum það sem af er þessu ári og nema útflutningsverðmætin 76,2 milljörðum NOK, 1.043 milljarða ÍSK. Útflutningurinn hefur dregist saman um 7% á milli ára en útflutningsverðmætin á hinn bóginn vaxið um 8%. Margt bendir til þess að útflutningsverðmæti Norðmanna af sjávarafurðum fari í fyrsta sinn yfir 100 milljarða norskra króna, eða 1.370 milljarða ÍSK.

Þetta kemur fram i samantekt Norska sjávarafurðaráðsins, Norges sjømatråd. Útflutningsverðmæti hafa aukist í öllum tegundum á þessu ári. Mest hefur aukningin orðið í laxi, eða 3 milljarðar NOK. Sterk staða norsku krónunnar er stór þáttur í aukningu útflutningsverðmæta í sjávarútvegi í Noregi.

Í september fluttu Norðmenn út 203.000 tonn af sjávarafurðum að verðmæti 8,7 milljarðar NOK. Þetta er 18% magnaukning og verðmætaaukningin er 14%, eða 1,1 milljarður miðað við sama tíma í fyrra.

Lax og silungur

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt út 806.000 tonn af laxi fyrir 52,3 milljarða NOK, 716 milljarða ÍSK. Þetta er 6% aukning í magni og 6% aukning í útflutningsverðmætum, eða sem nemur 3,1 milljarði NOK miðað við sama tíma í fyrra.

Í september fluttu Norðmenn út 109.000 tonn af laxi fyrir 6,1 milljarð NOK. Þetta er 24% aukning í magni en ekki nema 7% aukning í útflutningsverðmætum, eða sem nemur 412 milljónum NOK. Meðalverð fyrir ferskan lax í september var 50,08 NOK á kíló, um 685 ÍSK, en í september 2018 stóð meðalverðið í 60,96 NOK, 835 ÍSK.

Það sem af er þessu ári hefur mest verið flutt út af laxi til Póllands, Frakklands og Danmerkur. Aukin framleiðsla Norðmanna og annarra laxeldisþjóða er meginástæðan fyrir lægra meðalverði á þessu ári.

Það sem af er ári nemur útflutningur Norðmanna á silungi 40.800 tonnum og útflutningsverðmætin eru 2,6 milljarðar NOK. Þetta er 30% aukning í magni og 25% aukning í útflutningsverðmætum miðað við sama tímabil í fyrra. Stærstu markaðirnir eru Bandaríkin, Hvíta-Rússland og Tæland. Aukin framleiðsla hefur þrýst meðalverði á ferskum silungi úr 56,52 NOK á kíló, 773 ÍSK, niður í 52,56 NOK, 720 ÍSK.

Þorskur

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt út 44.200 tonn af ferskum þorski, þar á meðal þorskflök, fyrir 1,9 milljarð NOK, 26 milljarða ÍSK. Þetta er 23% minnkun í magni og 7% minnkun í útflutningsverðmætum miðað við sama tíma í fyrra. Danmörk, Pólland og Holland hafa verið stærstu markaðir fyrir ferskan þorsk frá Noregi á þessu ári. Í september fluttu Norðmenn út 1.600 tonn af ferskum þorski sem er 11% aukning í magni og 39% aukning í útflutningsverðmætum miðað við september 2018.

Norðmenn hafa flutt út 53.700 tonn af frystum þorski það sem af er árinu að verðmæti 2,3 milljarðar NOK. Magnið hefur aukist um 4% en útflutningsverðmætin um 19%. Stærstu markaðirnir hafa verið Kína, Bandaríkin og Pólland.

Saltfiskur

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt út 64.600 tonn af þurrkuðum saltfiski úr þorski og ufsa fyrir 3,2 milljarða NOK, 44 milljarða ÍSK, sem er svipað magn og á sama tímabili í fyrra en útflutningsverðmætin hafa aukist um 8%. Stærstu markaðirnir hafa verið Portúgal, Brasilía og Dóminikanska lýðveldið.

Dregið hefur úr útflutningi Norðmanna á blautverkuðum saltfiski um 22% það sem af er árinu. Alls hafa verið flutt út 19.200 tonn að verðmæti 1,1 milljarður NOK sem er12% samdráttur í útflutningsverðmætum. Stærstu markaðirnir hafa verið Portúgal, Spánn og Grikkland.

Þurrkaður fiskur

Norðmenn hafa flutt út 2.815 tonn af þurrkuðum fiski það sem af er árinu fyrir 492 milljónir NOK. Þetta er samdráttur upp á 157 tonn en útflutningsverðmætin jukust um 15%.  Ítalía hefur verið mikilvægasti markaður Norðmanna fyrir þurrkaðan fisk og mikil eftirspurn þaðan hefur haldið meðalverðinu í yfir 200 NOK á kílóið. Jafnframt hefur aukin eftirspurn frá Nígeríu leitt til aukins útflutnings og háu verði á þurrkuðum hausum.

Síld og makríll

Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt út 200.000 tonn af síld að andvirði 1,9 milljarð NOK, 26 milljarða ÍSK. Þetta er svipað magn og á sama tíma í fyrr en útflutningsverðmætin hafa vaxið um 7%. Verðhækkanir hafa verið mestar á Norðursjávarsíld og auk þess hefur útflutningur á síldarhrognum aukist sem rakið er til skorts á loðnuhrognum.

Norðmenn hafa flutt út 107.000 tonn af makríl það sem af er ári fyrir 1,8 milljarð NOK, 24,7 milljarða ÍSK. Þetta er 14% aukning í magni og jukust útflutningsverðmætin um 49%, eða 604 milljónir NOK. Í september fluttu Norðmenn út 10.100 tonn af makríl að andvirði 182 milljónir NOK. Þetta er 45% aukning í magni milli ára og 75% aukning í útflutningsverðmætum. Stærstu markaðirnir fyrir makríl hafa verið Kína, Suður-Kórea og Japan.

Væntingar um minni veiðar á þessu ári leiddu til verðhækkana allt frá því haustið 2018.