laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þerney veiddi úthafskarfakvótann á tíu dögum

31. maí 2016 kl. 15:20

Þerney RE (Mynd af vef HB Granda)

Fengu rúmlega 500 tonn upp úr sjó.

Þerney RE er nú á veiðum austan við Halamið og að sögn skipstjórans, Ægis Franssonar, hefur fengist ágætur ufsafli tvo síðustu sólarhringana. Þerney hóf veiðar á Vestfjarðamiðum eftir að lokið var við að veiða úthafskarfakvóta ársins á Reykjaneshryggnum en það tók áhöfnina á Þerney ekki nema tíu daga að ná kvótanum að þessu sinni.

,,Það var mjög góð karfaveiði í úthafinu og við vorum með rúmlega 500 tonn upp úr sjó á þessum tíu dögum. Örfirisey var á sömu slóðum og var með svipaðan afla og við,“ segir Ægir en frá Reykjaneshryggnum var siglt norður á Hampiðjutorg á Vestfjarðamiðum þegar úthafskarfakvótanum var náð.

,,Markmiðið var að veiða grálúðu og frá Hampiðjutorginu var farið norður í Kartöflugarðinn eða á Geirastaði, eins og það veiðisvæði er nefnt, og þar var þokkalegasta kropp þá daga sem hægt var að stunda veiðarnar vegna hafíss. Við fórum svo aftur á Hampiðjutorgið og erum austan við það núna í ágætis ufsaveiði. Það er þó nokkur fjöldi af skipum á svæðinu enda eru allir að reyna við ufsann,“ sagði Ægir Fransson.

Von er á Þerney RE til Reykjavíkur á fimmtudag vegna sjómannadagshelgarinnar þannig að eftir eru tæpir tveir sólarhringar á veiðum áður en haldið verður til hafnar.

Frá þessu er skýrt á vef HB Granda.