sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þjóðin klofin í afstöðu til hvalveiða

Svavar Hávarðsson
11. júní 2018 kl. 07:00

Heimild/MMR

Skoðanakannanir síðustu ára draga ekki upp skýra mynd af því hvað landsmönnum finnst um hvalveiðar.

Enga afdráttarlausa línu má greina hjá landsmönnum um hvort halda eigi áfram hvalveiðum. Þetta má lesa úr nýrri skoðanakönnun MMR á því hvort hefja skuli hvalveiðar að nýju eftir tveggja ára hlé.

Rúmlega þriðjungur svarenda í könnun MMR kváðust frekar eða mjög andvígir áframhaldandi hvalveiðum (34%) og rúmlega þriðjungur hlynntur þeim (34%) en tæplega þriðjungur kvaðst hvorki hlynntur né andvígur veiðunum (31%). Könnunin var gerð dagana 26. apríl til 2. maí.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hyggst Hvalur hf. hefja veiðar á stórhveli á næstu dögum. Hvalveiðiskipin hafa verið tekin upp í slipp og skveruð, svo ekkert er að vanbúnaði að hefja veiðarnar. Leyfilegt er að veiða 161 dýr þessa vertíðina samkvæmt kvóta ársins, auk hluta þess kvóta sem stóð eftir óveiddur eftir síðustu vertíð, eða allt að 209 langreyðum.

Kveikja veiðanna nú – en forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu gefið það út að veiðunum væri sjálfhætt vegna markaðsaðstæðna – er endurnýjuð von um opnun markaða. Eins kom fram í Morgunblaðinu að Hvalur hf. hefur unnið að rannsóknum á möguleikum þess að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi. Einnig gelatín úr beinum og hvalspiki til lækninga og í matvæli.

Neikvæð áhrif?

Þrátt fyrir háværar raddir um neikvæð áhrif hvalveiða okkar á viðskiptahagsmuni og ímynd, virðist ekkert haldbært vera að finna um að slík áhrif séu eins skaðleg og oft er af látið. Skýrsla utanríkisráðherra um áhrif hvalveiða á samskipti Íslands og annarra ríkja, virðist draga það skýrt fram. 

Sagði að ekki yrði dregin sú ályktun að bein mælanleg áhrif á viðskipti megi rekja til hvalveiða Íslendinga. Framhjá því yrði þó ekki litið að almenningsálit í mörgum viðskiptalöndum Íslands hefur verið gegn hvalveiðum. „Hafa slík sjónarmið og stjórnmálaumræða í tilteknum ríkjum stundum falið í sér óþægindi fyrir útflytjendur og eftir atvikum kaupendur og verslanir í viðkomandi ríkjum sem beinast að íslenskum vörum og afurðum,“ segir í skýrslunni og jafnframt að ekki verði séð að samskipti Íslands við stjórnvöld aðildarríkja CITES-samningsins og orðspor hafi skaðast vegna alþjóðlegrar verslunar með hvalaafurðir. Þau samskipti hafa í meginatriðum verið óbreytt um árabil og eru ekki sýnilegar ástæður til að ætla að breyting verði þar á.

Aftur í tímann

Þegar flett er aftur í tímann og skoðanakannanir um sama efni eru bornar saman við þá nýjustu, kemur í ljós að fyrst eftir að veiðar á stórhveli hófust að nýju – árið 2006 – var mikill meirihluti þjóðarinnar þeirrar skoðunar að það væri sjálfsagt og eðlilegt. Frá þeim tíma hafa reglulega verið gerðar skoðanakannanir um það sama – bæði af fjölmiðlum, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Fyrir þann tíma skiluðu skoðanakannanir yfirleitt um 90% vilja til að hefja veiðar að nýju. Inni á þingi var í þetta vitnað og sagt að þetta væri sjálfsagður réttur og skylda fullvalda þjóðar. Þá og nú töldu sérfræðingar að líffræðilegar forsendur væru til þess að stunda hvalveiðar hér við land.

Þegar á leið gruggaðist vatnið. Í apríl 2007 var birt könnun Capacent Gallup sem var mjög áþekk þeirri sem nú liggur á borðinu frá hendi MMR. Þjóðin skiptist í tvær fylkingar með og á móti. Þá var spurt um hvalveiðar – og því veiði á hrefnu og langreyði undir, væntanlega. Þegar aðeins var spurt um veiðar Hvals hf. á stórhveli er annað uppi. Árið 2013 kom fram í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins að mikill meirihluti landsmanna var hlynntur veiðunum. Á sama tíma gerði Capacent Gallup skoðanakönnun fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sem sýndi það sama. Aðeins 10 mánuðum seinna kom fram í könnun frá Stöð 2 og Fréttablaðinu að innan við helmingur styddi veiðar á langreyði.

Kynjamunur

Svo aftur sé litið til könnunar MMR frá því um mánaðamótin var munur á afstöðu gagnvart hvalveiðum eftir kyni en rúmlega 38% kvenna kváðust frekar eða mjög andvígar því að Íslendingar hefji hvalveiðar á ný, samanborið við rúmlega 30% karla. Konur voru að sama skapi ólíklegri til að segjast frekar eða mjög hlynntar áframhaldandi hvalveiðum (25%) heldur en karlar (43%). Lítill munur var á svörum eftir aldurshópum en stuðningur við hvalveiðar var minnstur (29%) hjá svarendum á aldrinum 18-29 ára. Þá voru þeir svarendur sem búsettir voru á landsbyggðinni öllu hlynntari hvalveiðum (42%) heldur en þeir á höfuðborgarsvæðinu (30%). Andstaða gegn hvalveiðum jókst með aukinni menntun og auknum heimilistekjum.

Hægrið vill veiða

Stuðningsfólk Samfylkingar (59%), Viðreisnar (55%), Vinstri grænna (46%) og Pírata (45%) voru líklegri til að segjast frekar eða mjög andvíg því að hvalveiðar yrðu hafnar á ný en 41% stuðningsfólks Samfylkingar sögðust mjög andvíg. Mestan stuðning við áframhald hvalveiða var hins vegar að finna á meðal stuðningsfólks Miðflokks (59%), Framsóknarflokks (48%), Flokks fólksins (47%) og Sjálfstæðisflokks (44%) og kváðust 35% stuðningsfólks Miðflokksins mjög hlynnt því að hefja hvalveiðar á ný.

Úrtak MMR voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og byggðu niðurstöðurnar á svörum 961 einstaklinga.