fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þokkaleg síldveiði í Breiðamerkurdýpi

8. desember 2013 kl. 10:21

Síld

Síldin mun smærri en í Breiðafirðinum.

Síldveiðiskipin eru horfin úr Breiðafirðinum og hafa verið að veiðum fyrir sunnan land síðustu sólarhringana. Lundey kom til Vopnafjarðar  um miðjan dag í gær með 700 tonna afla Ingunn nokkru síðar með rúmlega 900 tonna afla, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Engin síldveiði hefur verið á veiðisvæðinu í Breiðafirði sl. hálfan mánuð eða svo og varð það til þess að skipin fluttu sig austur í Breiðamerkurdjúp þar sem verið hefur þokkaleg veiði sl. tvo sólarhringa. Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey, töldu menn að fullreynt væri í bili í Breiðafirðinum.

,,Fyrir utan kolvitlaust tíðarfar varð ekkert vart við síld þá daga sem viðraði til veiða. Við vorum í vari inni á Grundarfirði í mestu ótíðinni og svo á Akranesi í nokkra daga áður en við héldum hingað austur. Það er erfitt að átta sig á því hve mikið er af síld í Breiðamerkurdjúpinu vegna þess hve síldin er dreifð og ekkert um góðar lóðningar. Þá er síldin mun smærri en í Breiðafirðinum og meðalvigtin hjá okkur núna er á að giska um 270 grömm,“ segir Arnþór á heimasíðu HB Granda en að hans sögn hættu öll skipin veiðum í fyrrakvöld eftir að veður versnaði til muna.

Arnþór segir að óvissa ríki um framhaldið. Öll skipin hafa verið á nótaveiðum utan hvað Vilhelm Þorsteinsson EA hafi reynt veiðar í flottroll nokkuð fyrir utan svæðið þar sem nótaveiðarnar voru stundaðar.
,,Mér skilst að hann hafi fengið 150 tonna hol af um 300 gramma síld og e.t.v. bendir það til þess að vænlegra sé að reyna togveiðar en nótaveiðar,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Í samtali við Guðlaug Jónsson, skipstjóra á Ingunni AK, kom fram að stærri nót hafi verið tekin um borð í Reykjavík áður en haldið var austur.

,,Við vorum komnir í Breiðamerkurdjúpið í fyrrakvöld. Lóðningar voru lélegar og ég hef á tilfinningunni að þar sé ekki mikið magn af síld. Við létum reka í gærdag en vorum svo að veiðum þar fram eftir kvöldi en þá var kominn kaldaskítur. Síldin er mun smærri en í Breiðafirðinum og meðalvigtin hjá okkur er um 250 grömm ef marka má niðurstöður þeirra mælinga sem gerðar voru,“ segir Guðlaugur Jónsson.