þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þolimæðisvinna á grálúðunni

Guðsteinn Bjarnason
3. ágúst 2019 kl. 07:00

Tómas Þorvaldsson GK 10. MYND/Jón Steinar Sæmundsson

Áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni GK 10 er að kynnast nýja skipinu sem Þorbjörn hf. keypti af Grænlendingum. Fyrsti túrinn helgaður grálúðuveiðum

Hálfur mánuður er liðinn síðan Tómas Þorvaldsson GK sigldi í sinn fyrsta túr eftir að skipið komst í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík.

„Við byrjuðum túrinn fyrir vestan,“ sagði Sigurður Jónsson skipstjóri. „Fyrstu fimm dagana voru með okkur áhöfnin sem er á móti okkur og þrír aðrir sem voru að hjálpa okkur að koma þessu af stað. Við skiluðum þeim af okkur á Siglufirði og fórum svo hingað austur. Hér erum við bara á lúðu.“

Sigurður var búinn að vera á Hrafni Sveinbjarnarsyni í 29 ár og segir að líklega hafi verið kominn tími á að breyta til.

„Skipið fer vel með okkur, það er ekki spurning. Þetta lofar mjög góðu. Mannskapnum líður vel og þetta eru spennandi tímar. Fyrir okkur sem erum að koma frá Hrafni Sveinbjarnarsyni er þetta töluverður munur. Það er allt rýmra og betra.“

Gera skipið að sínu
„Það þarf bara að aðlaga afturhlutann á vinnsludekkinu að því sem við erum að gera, að þeim kvóta sem við erum að fiska,“ segir Sigurður og líkir þessu við það að flytja inn í nýtt hús, eða notað. „Menn þurfa alltaf að gera það að sínu.“

Meðan skipið hér Sisiumut einbeitti áhöfnin sér hálft árið að grálúðuveiðum við Grænland, en hinn hluta ársins var skipið í Barentshafi, norska hlutanum, við þorskveiðar einkum.

„Lífið er einfalt á frystitogara ef þú ert að veiða bara eina sort, en ef þú ert að veiða fleiri tegundir þá breytist þetta algerlega. Það er samt ekkert vandamál því þetta eru þekktar stærðir sem við höfum gengið í gegnum áður.“

Þorbjörn hf. keypti skipið af grænlensku útgerðinni Royal Greenland, sem hafði gert það út undir nafninu Sisimiut síðan 1996. Áður hét þetta skip Arnar HU, gerður út af Skagstrendingi, en skipið er smíðað árið 1991 og er því 28 ára gamalt.

Netabátar á veiðislóðinni
Fjöldinn allur af netabátum hefur reyndar verið að veiða á svipuðum slóðum, og þá er ekki einfalt að vera á stórum frystitogara á grálúðuveiðum innan um netabátana.

„Þeir skora ekkert hátt hjá okkur í ánægjustuðlinum,“ segir Sigurður. „Við eigum litla samleið. Þeir er að leggja net og láta þau liggja í 4 til 5 daga. Þegar netadrossur liggja hérna yfir öllu þá er lítið eftir fyrir okkur.“

Sigurður segist reyndar lengi hafa haft þá kenningu að grálúðan hafi komið hingað frá Noregi fyrir um átta árum.

„Þá var þetta smálúða sem við fengum, mikið af merktri lúðu, fín veiði en síðan hefur hún alltaf verið að veiðast árinu eldri. Almennt sýnist manni að veiðin sé lakari núna en hún hefur verið. Mín tilfinning er sú að þetta verði bara veitt upp.“

Hvað sem því líður þá segir Sigurður það vera þolinmæðisvinnu að vera á grálúðunni. Hún veiðist ekki í miklu magni en á móti kemur að kílóverðið er gott.

„Það er svo sem ágætt þegar maður er að kynnast skipinu að veiða eitthvað sem fiskast kannski ekki mikið en verðið er hátt, þannig að þetta er ekki spurningin um hvað tonnin verða mörg. Þetta hentar okkur mjög vel meðan við erum að koma okkur af stað.“

Hann reiknar með að koma til Grindavíkur á miðvikudaginn í næstu viku. Eftir tveggja daga stopp eða svo verður aftur haldið á grálúðuveiðar.

„Við erum bara að taka kvótann okkar. Ég reikna með að til 1. september verðum við langmest á lúðu. Ætlum að sjá til hvernig það gengur en svo þegar nýtt kvótaár kemur þá förum við í bolfiskinn, blandaða veiði eins og við höfum verið á.“