þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskkvótinn aukinn um 10% á næsta fiskveiðiári

6. júlí 2011 kl. 08:15

Þorskar.

Sjávarútvegsráðherra fylgir ráðgjöf Hafró í meginatriðum nema í ýsu, ufsa og djúpkarfa

Að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið að heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 verði 177 þúsund tonn eða um 10% hærri en er á yfirstandandi fiskveiðiári. Umrædd tala er í samræmi við aflareglu í þorski.

Heildarafli ýsu fyrir árið 2011/2012 er ákveðinn 45 þúsund, sem er 5 þúsund tonna lækkun frá fyrra ári. Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildarafli í ýsu verði 37 þúsund tonn en á yfirstandandi fiskveiðiári er heimilað að veiða 50 þúsund tonna. Ráðherra segir að frávik frá ráðgjöf skýrist meðal annars af afla sem nauðsynlegt er að taka tillit til, svo veiðar annarra stofna geti gengið eðlilega fyrir sig.

Aukið við ufsann

Heildarafli ufsa fyrir árið 2011/2012 verður 52 þúsund tonn, sem er lítilsháttar aukning frá aflaheimildum fyrra árs. Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til að aflamark verði 45 þúsund tonn. Ákvörðun ráðherra um frávik frá ráðgjöf er sögð skýrast meðal annars af afla sem nauðsynlegt er að taka tillit til svo veiðar annarra stofna geti gengið eðlilega fyrir sig.  

Í samræmi við ráðgjöf eru heimildir í steinbít lækkaðar talsvert eða úr 12 þúsund tonnum í 10,5 þúsund tonn en þó ekki niður í 7.500 tonn eins og stofnunin lagði til.

Aflaheimildum í karfa var skipt upp í heimildir í djúpkarfa og gullkarfa á síðasta ári og er þeirri skiptingu haldið. Að tillögu Hafrannsóknastofnunar er ákveðið að kvótinn í gullkarfa verði aukinn í 40 þúsund tonn. Hafrannasóknastofnun lagði til að kvótinn í djúpkarfa yrði 10 þúsund tonn en ráðherra gefur út 12 þúsund tonna kvóta.

5 þúsund tonna upphafskvóti í síld

Stofnar keilu og löngu hafa verið í vexti síðustu ár og í báðum tilvikum er um að ræða aukningu heimilda í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Ákvörðun um lönguafla er 9 þúsund tonn og keiluafla 7 þúsund tonn.

Grálúða við Austur-Grænland, Færeyjar og Ísland er talin af sama stofni, en ekki hafa náðst samningar milli þjóðanna um stofninn. Í ljósi þess ákveður ráðherra að heildaraflamark Íslands í grálúðu verði óbreytt eða 13 þúsund tonn.

Í íslenskri síld er upphafskvóti 5 þúsund tonn. Í langlúru, þykkvalúru, skötusel, sandkola, skarkola og skrápflúru er aflamark óbreytt frá fyrra ári.