mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskstofn í Kyrrahafi leitar norður í hlýnandi sjó

6. nóvember 2019 kl. 09:00

Lengi var bara talað um þorsk, sama hvar hann veiddist, en sá sem veiðist í Kyrrahafi er um margt ólíkur þorskinum í Norður - Atlantshafi. Mynd/NOAA

Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hefur sýnt fram á stórfellda tilfærslu þorskstofns í Beringshafi.

Bandarískir líffræðingar lyftu brúnum árið 2017 þegar mun meira af þorski mældist í norðanverðu Beringshafi en áður hafði þekkst (kyrrahafsþorskur - einnig þekktur sem gráþorskur).

Nú hafa erfðarannsóknir Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna  (NOAA) leitt í ljós að ekki er um fjölgun innan stofnsins sem dvelur á norðanverðu hafsvæðinu að ræða heldur á þorskurinn uppruna sinn að rekja til suðausturs hluta Beringshafs, að því kemur fram í Seafood Source.

Gróflega má segja að Beringshaf sé nyrsti hluti Kyrrahafsins milli Alaska í austri og austurströnd Síberíu og Kamtsjatka-skaga í vestri. Rannsóknir á svæðinu hafa löngum verið miklum annmörkum háð vegna veðurfars og ísa, en hlýnun síðustu áratuga hefur þýtt að nákvæmari rannsóknir eru nú mögulegar. Þær rannsóknir sem þó hafa verið gerðar hafa ætíð sýnt slæðing af þorski á þessu svæði en ekkert í líkingu við þann stóra stofn sem veitt hefur verið úr á suðaustur hluta svæðisins.

900 földun

Árið 2010 mældist þrjú prósent heildarstofnsins á norðanverðu svæðinu í Beringshafi. Sjö árum síðar var gerð ný rannsókn. Niðurstaðan var afgerandi, þó ekki verði kveðið sterkar að orði því 900 sinnum meira mældist þá af þorski en sjö árum fyrr.

Þessar niðurstöður urðu til þess að frekari rannsóknir voru gerðar og NOAA hefur gefið út að árið 2018 mældist meira af þorski í Beringshafi norðanverðu en á hinum vel þekktu veiðisvæðum í suðaustri.

Kenningin var sú að stofninn væri að stækka vegna hlýnunar eða að jafnvel væri fiskur að hreyfa sig frá Rússlands hluta hafsvæðisins. Erfðafræðilegar rannsóknir hafa hins vegar staðfest, svo ekki verður um villst, að þorskurinn er einfaldlega að færa sig norðar vegna breyttra aðstæðna í kjölfar hlýnunar.

Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hvort þorskurinn hefur sagt skilið við hrygningarstöðvar sínar í suðausturhluta svæðisins eða lengt fæðugöngur sínar svo mikið. Hvort sem er mun þessi breyting hafa mikil áhrif á veiðar úr tegundinni, er mat vísindamanna sem telja frekari rannsóknir aðkallandi til að leysa gátuna.