mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskur og ýsa á undanhaldi við Bretland

20. september 2011 kl. 16:03

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Hlýnun sjávar hefur áhrif á fisktegundir ýmist til góðs eða ills.

Þorskur, ýsa og aðrar hefðbundnar nytjategundir fiska eru á undanhaldi í hafinu umhverfis Bretlandseyjar en hlýsjávartegundum fjölgar. Breskir vísindamenn rekja þróunina til þess að hitinn í sjónum hefur hækkað.

Hækkun sjávarhita vegna loftslagsbreytinga hefur áhrif á viðgang að minnsta kosti 36 algengra fiskitegunda á austanverðu Atlantshafi og í Norðursjó. Þar af eflist þriðjungur tegundanna við hækkandi sjávarhita.  Meðal níu tegunda sem eru á undanhaldi vegna  sjávarhitans eru þorskur, ýsa, ufsi og langa, allt tegundir sem eru mikilvægar fyrir fiskveiðar.

Tegundir sem kjósa kaldari sjó eins og þorskur og ýsa fara illa en fiskar sem þrífast í hlýrri sjó eins og lýsingur og sandkoli eru í miklum vexti og sérkennilegar hlýsjávartegundir eins og rauðskeggur, urrari og pétursfiskur.Þetta eru niðurstöður rannsóknar  sem stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa látið gera. Bornar voru saman upplýsingar um 50 fiskitegundir og lífríkið á eins milljón ferkílómetra hafsvæði á landgrunni Evrópu síðustu 28 árin. 

Vísindamennirnir spá frekari hnignun kaldsjávarfiska sem hafi verið mikilvægur hluti fæðu kynslóðanna fram á okkar tíma og að furðufiskum úr heitari höfum fjölgi.

Þetta kemur fram á vef RÚV.