þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskur við Nýfundaland að ná sér á strik?

6. febrúar 2011 kl. 11:00

Þorskur á sundi.

Veruleg hækkun á stofnvísitölu þorsks í Placentia-flóa

Þorskstofninn í Placentia-flóa á suðausturströnd Nýfundalands í Kanada gæti verið að ná sér á strik á ný samkvæmt nýrri ástandsskýrslu kanadískra vísindamanna. Um er að ræða staðbundinn þorsk á afmörkuðu svæði (3PS). Samkvæmt nýju stofnmati hefur þorskum í flóanum fjölgað um 50 milljónir, voru um 38,7 milljónir fiska árið 2008 en eru nú taldir vera 88,5 milljónir. Vísitala lífmassa sýnir einnig verulegan bata. Stofninn er talinn vera rúm 57 þúsund tonn 2010 en var samkvæmt fyrra mati 20 þúsund tonn árið 2008. Hrygningarstofninn er talinn vera á uppleið. Megnið af fiskinum sem hefur bæst við er úr 2006 árganginum.  

Takmarkaðar veiðar eru leyfðar á þorski í Placentia-flóa og er kvótinn nú 11.500 tonn.

Fjöldi erlendra skipa stundaði þorskveiðar á þessu svæði hér á árum áður. Mest náði þorskveiðin 84 þúsund tonnum árið 1961. Þegar aflinn var kominn niður í 15 þúsund tonn 1993 var sett á tímabundið veiðibann. Veiðar voru svo leyfðar á ný 1997.

Heimild: www.nlnewsnow.com