miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskurinn ekki genginn á Selvogsbankann

21. febrúar 2020 kl. 13:10

Bergey siglir í fyrsta sinn inn í Vestmannaeyjahöfn. MYND/Guðmundur Alfreðsson

Venjulega er þorskurinn mættur á Selvogsbankann í lok febrúar eða í byrjun mars - styttist í vertíðina.

Ísfisktogarinn Bergey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn. Aflinn var að mestu þorskur, ufsi og karfi.

Ragnar Waage Pálmason var skipstjóri í veiðiferðinni og var það í fyrsta sinn sem hann stýrði hinu nýja skipi, að því er kemur fram í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Þar segir að aflinn fékkst út af Vík í Mýrdal og á Selvogsbanka. Bergey hélt á ný til veiða aðfaranótt fimmtudag.

Heimasíðan heyrði jafnframt í Jóni Valgeirssyni skipstjóra í gær þar sem skipið var að toga á Selvogsbankanum.

„Við erum á Selvogsbankanum að vakta stöðuna. Það er rólegt hér ennþá, þorskurinn er ekki kominn hér enn í ríkum mæli til hrygningar. Venjulega er þorskurinn mættur hingað í lok febrúar eða í byrjun mars þannig að þetta hlýtur að fara að koma. Þorskurinn er að ganga til dæmis að austan og hann gengur með fjörunum. Það hefur líka verið fín veiði í Háfadýpinu. Það er alls ekki hægt að kvarta undan fiskiríinu að undanförnu, það fékkst til dæmis stór og fallegur fiskur í síðasta túr. Nýja skipið reynist vel og það verður gaman þegar hin eiginlega vertíð byrjar af krafti,“ segir Jón í fréttinni.

Smáey VE landaði 45 tonnum í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og Vestmannaey VE hélt til veiða frá Akureyri í nótt, en þar var verið að lagfæra millidekk skipsins.